Líflegt Óli B. Bjarnason með 83 cm langan sjóbirting sem hann veiddi í Tóftarhyl í Geirlandsá í gær. Veiðim þar fór afar vel af stað.
Líflegt Óli B. Bjarnason með 83 cm langan sjóbirting sem hann veiddi í Tóftarhyl í Geirlandsá í gær. Veiðim þar fór afar vel af stað. — Ljósmynd/Gunnar J. Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Þetta hefur verið snilldin ein,“ sagði Gunnar J. Óskarsson, formaður Stangaveiðifélags Keflavíkur, þegar opnunarhollið var að ljúka veiðum í Geirlandsá í gærkvöld.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Þetta hefur verið snilldin ein,“ sagði Gunnar J. Óskarsson, formaður Stangaveiðifélags Keflavíkur, þegar opnunarhollið var að ljúka veiðum í Geirlandsá í gærkvöld. Þar eins og svo víða fór veiðin vel af stað.

„Við vorum bara að veiða á eina eða tvær stangir í einu og samt var mokstur,“ bætti hann við. „Þetta var líf og fjör. Svo var gaman að við vorum að fá fiska á mörgum stöðum.“ Það voru því ekki einungis Ármótin sem gáfu að þessu sinni. „Við fengum fiska við Kleifarnef, Í Tóftarhyl, Brúarhyl, við Garðana,“ telur hann upp. „Seinnipartinn fengum við góðan slatta í Ármótunum. Við höfum fengið sex til átta fiska um 80 cm. Þetta eru svakalegir trukkar sem við höfum verið í þvílíku togi við.“

„Ekki amalegt“

Aðstæður voru góðar á sjóbirtingsslóð í Vestur-Skaftafellssýslu í gær, fimm til sjö stiga hiti og milt.

„Við fengum 22 í morgun og alla hérna,“ sagði Árni Friðleifsson þegar blaðamaður hitti á hann við Syðri-Hólma í Tungufljóti. Þar hefur löngum verið besti veiðistaðurinn. „Þetta voru 60 til 80 cm langir fiskar og voru að taka stórar túpur.“

Ragnar Johansen á Hörgslandi sagði veiðina hafa byrjað frekar rólega í Vatnamótunum í gærmorgun, með tökuleysi þar við austanverða Skaftá. „En þegar fór að hlýna og létti til þá fór hann að taka. Það er mikið af fiski. Strákarnir lönduðu tuttugu á þrjár stangir en tökurnar voru grannar,“ sagði hann.

Í Brúará voru fjórir veiðimenn komnir með tuttugu bleikjur í landi Spóastaða og að auki vænan sjóbirting sem tók undir brúnni. Og svo var mokveiði í Litluá þar sem 92 silungum var landað á stangirnar fimm.

„Þeir fengu alls staðar fiska. Það er meiri bleikja en á þessum tíma síðustu ár, helmingur aflans var bleikja, hitt sjóbirtingur. Þetta eru fiskar á bilinu 55 til 70 cm. Það er ekki amalegt,“ sagði Sturla Sigtryggsson í Keldunesi um byrjunina.