Hjónalíf Gunnar Jónsson og Dallilja Jónsdóttir fluttu til Stykkishólms árið 1980 og hafa búið þar síðan.
Hjónalíf Gunnar Jónsson og Dallilja Jónsdóttir fluttu til Stykkishólms árið 1980 og hafa búið þar síðan. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Gunnlaugur Árnason Stykkishólmi Í dag, þriðjudaginn 2. apríl, fagnar Gunnar Jónsson í Stykkishólmi 100 ára afmæli sínu. Hann býr ásamt konu sinni, Dallilju Jónsdóttur, á Dvalarheimilinu í Stykkishólmi. Þau voru gefin saman í hjónaband 27.

Gunnlaugur Árnason

Stykkishólmi

Í dag, þriðjudaginn 2. apríl, fagnar Gunnar Jónsson í Stykkishólmi 100 ára afmæli sínu. Hann býr ásamt konu sinni, Dallilju Jónsdóttur, á Dvalarheimilinu í Stykkishólmi. Þau voru gefin saman í hjónaband 27. maí árið 1939 fyrir tæpum 74 árum, hann 26 ára, hún 18 ára. Það er langt og farsælt hjónaband. Börn þeirra eru þrjú.

Gunnar er Borgfirðingur, fæddur að Þorgautsstöðum í Hvítársíðu. Þar sem foreldrar hans bjuggu ekki saman varð það hans hlutskipti fyrstu árin að eiga engan fastan samastað heldur var honum komið í fóstur á ýmsum bæjum fram yfir fermingu. Fólk tók unga drenginn að sér af góðmennsku og flest árin var hann í fóstri að Hvassafelli, þar sem honum leið vel. Eftir fermingu var talið að hann væri kominn í fullorðinna manna tölu og því fylgdi að fara að vinna fyrir sér. Fyrstu árin vann við ýmis sveitastörf. Árið 1930 er Gunnar var 17 ára tók hann bílpróf og næstu árin starfaði hann sem bílstjóri og ók fólki og svo á stærri bílum. Hann starfaði hjá Finnboga Guðlaugssyni í Borgarnesi í mörg ár við akstur á flutningabílum. Gunnar og Dallilja bjuggu í Borgarnesi til ársins 1954. Þá flytja þau að Tungu í Hörðudal og hófu þar búskap. Árið 1967 var dvalarheimili aldraða, Fellsendi, í Dalasýslu stofnað. Dallilja var fyrsta forstöðukonan og Gunnar var ráðinn ráðsmaður. Hans verk var að sjá um viðhald og aðdrætti fyrir heimilið. Þaðan lá leiðin að Álfatröðum í Hörðudal og árið 1972 flytja þau aftur í Borgarnes. Til Stykkishólms flytja hjónin 1980 og hafa búið hér síðan. Gunnar býr við nokkuð góða heilsu og hefur gaman af að rifja upp gamlar minningar. Það fer vel um þau hjón á dvalarheimilinu og njóta þau góðrar þjónustu starfsfólksins