Ásgeir Pétursson
Ásgeir Pétursson
Frá Ásgeiri Péturssyni: "Fyrir mig sem hef fylgst með afa mínum og ömmu og foreldrum byggja upp landið, fólki sem tók þátt í stofnun lýðveldisins 1944 og var stolt af því að vera sjálfstæðir Íslendingar, hefur það verið sorglegt að fylgjast með ungu fólki þessa lands með..."

Fyrir mig sem hef fylgst með afa mínum og ömmu og foreldrum byggja upp landið, fólki sem tók þátt í stofnun lýðveldisins 1944 og var stolt af því að vera sjálfstæðir Íslendingar, hefur það verið sorglegt að fylgjast með ungu fólki þessa lands með drápsklyfjar af verðtryggðum lánum á bakinu sem bara hækka frá degi til dags og hrökklast úr landi til að reyna að byggja sitt líf annars staðar. Þetta eru þeir sem landið eiga að erfa og ungbændurnir sem eiga að yrkja landið og sjá okkur fyrir heilnæmum matvælum kikna undan skuldaklafanum, eins og reyndar sjómenn líka – en er þeim þakkað fyrir dugnað sinn og samvisku? Ekki hef ég tekið eftir því.

Bændur á Íslandi í dag eru ein fátækasta starfsstéttin og ekki munu kjör þeirra batna við inngöngu í ESB. Það gengur ekki lengur að koma svona fram gagnvart ungu og duglegu fólki, að láta það standa undir þessu peningaoki, að þurfa að sjá á eftir eigum sínum brenna upp í víxlverkun vaxta og verðtryggingar sem hinir einir græða á sem síst skyldu. Til að unga fólkið okkar hafi áhuga á því að vinna hér og búa verða að vera við völd stjórnmálamenn sem vinna með fólkinu og fyrir fólkið. Þegar ég var ungur var mér sagt að það væri skylda hverrar kynslóðar að skila landinu betur en hún tók við því, ekki sýnist mér að sú sé raunin nú.

Ég hef reynt eins og aðrir að fylgjast með pólitískri umræðu lengi og hef fengið nóg, hér er ekki verið að vinna í þágu ungs fólks heldur þveröfugt. Í komandi kosningum eru allir flokkar að viðra sínar skoðanir á hvernig sé best að stjórna landinu ef þeir fá til þess umboð, það hefur mér virst að þetta fólk hafi átt bágt með að sannfæra þjóðina um að einhver bót verði á málum því fyrri aðkoma þeirra að stjórn landsins hefur rúið þá öllu trausti. Vegna þessa hef ég verið að skoða hvað annað sé í boði og komist að því að flokkur sem kallar sig Hægri græna hefur á stefnuskrá sinni skýrar línur og áætlanir um hvernig eigi að leysa skuldavanda heimilanna, með áður reyndum aðferðum með góðu móti frá Ameríku. Það er lífsnauðsynlegt fyrir íslenska þjóð að þessi vandamál verði leyst, til að unga fólkið okkar geti treyst á lífsskilyrðin hér heima, því hér bíða verkefni sem þarf að vinna, atvinnuvegur sem þarf að byggja upp á ný og framleiðslan þarf að vera vönduð og góð, því að það land sem ekki framleiðir vörur sem aðrir vilja kaupa er illa sett og á vonarvöl. Ég hef mikla trú á fólki þessa lands og ef við leggjum þeim í hendur starfsaðstöðu og skilyrði þá skilum við saman betra landi í hendur komandi kynslóða.

Ég skora á kjósendur að kynna sér stefnuskrá Hægri grænna, hún er ekki orðin tóm, hún er rökrétt, stefnuskrána má finna á x-g.is

ÁSGEIR PÉTURSSON,

fyrrverandi millilandaskipstjóri

og núverandi bóndi.

Frá Ásgeiri Péturssyni