Guðmundur Tómas Magnússon, „Tumi“, fæddist í Hrafnsstaðakoti í Svarfaðardal 13. febrúar 1935. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 12. mars 2013.

Útför Guðmundar Tómasar fór fram frá Fossvogskirkju 21. mars 2013.

Þann 21 mars 2013 var til grafar borinn gamall skólafélagi, Guðmundur Tómas Magnússon. Oftast var hann kallaður Guðmundur Tumi eða bara Tumi. Við vorum bekkjarfélagar í Menntaskólanum á Akureyri 1951-1955 og bjuggum allan tímann í heimavistinni.

Tumi hafði það ábyrgðarmikla starf á karlavistinni að vekja okkur hina á morgnana. Klukkan sjö gekk hann um og hringdi stórri bjöllu. Þegar hann svo fjarlægðist eftir ganginum og bjölluhljómurinn mildaðist held ég að margur hafi snúið sér á hina hliðina. En Tumi sá við því. Hann sneri alltaf við, gekk sömu leið til baka og hringdi nú af enn meiri krafti en fyrr. Það var ekki við hann að sakast ef einhver mætti of seint í tíma. En hver vakti svo hringjarann? Hann virtist vakna fyrirhafnarlaust og hress á hverjum morgni. Ég minnist þess ekki að hann hafi sofið yfir sig.

Sem ungur maður var Guðmundur Tumi nokkuð sérstæður í útliti. Fremur lágvaxinn og þybbinn en mesta athygli vakti hversu dökkur hann var yfirlitum. Hárið var kolsvart og gat slegið á það slikju. Ekki var hann íþróttum búinn utan einni. Ég held að hann hafi verið í hópi allra bestu bridsspilara sem þá voru í skólanum.

Ég minnist atviks í fjórða bekk. Við byrjuðum að læra latínu þá um haustið og höfðum nú skrifað okkar fyrsta latneska stíl. Kennarinn, sem hafði yfirfarið stílana, kallaði þá sem best höfðu gert upp að púltinu og fór með tilþrifum yfir stílana með þeim en við hin hlýddum á. Tumi var í hópi þeirra sem kallaðir voru upp. Latínukennarinn var enginn annar en Brynleifur Tobíasson, sem kennt hafði latínu við skólann í áratugi og var landsþekktur maður. Ekki var hann síður sérstæður í útliti, höfuðið stórt og nauðasköllótt, svipurinn strangur og andlitsdrættir oft eins og meitlaðir í stein. Haft var á orði að hann minnti á rómverskan senator. Tumi stóð sig vel en kostulegt var að horfa á Svarfdælinginn unga og senatorinn aldna þrátta um stílinn þarna uppi við púltið. Hefði verið gaman að eiga farsíma þá og getað náð í smá myndbandsbút af atburðinum.

Þó að við yrðum báðir læknar og störfuðum í Reykjavík voru kynni okkar á þeim vettvangi ekki mikil. Til þess voru sérgreinar okkar alltof ólíkar og sköruðust ekki. Liðu áratugir án þess að við hittumst svo að heitið gæti. En svo var það einn dag fyrir um það bil tveimur árum er ég var á gangi meðfram Arnarnesvoginum að ég mætti Tuma. Var hann þá fluttur í Garðabæinn. Eftir það hittumst við nokkrum sinnum. Þó að heilsan væri farin að bila var hann jafnan glaður og reifur og gaman að tala við hann.

Ég færi eiginkonu Guðmundar Tuma og öllum hans ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur og veit að ég tala þar fyrir munn allra sem útskrifuðust með honum úr MA á björtu vori 1955. Ég mun ávallt hugsa til þessa eftirminnilega skólafélaga með hlýhug og virðingu.

Gunnar Gunnlaugsson.