Afköst Richard Branson virðist alltaf þurfa að vera að bardúsa eitthvað og byrjaði viðskiptaferilinn snemma. Hér er hann á leið í hjólreiðatúr í Suður-Afríku til að kynna líkamsræktarstöðvakeðjuna sína, Virgin Active.
Afköst Richard Branson virðist alltaf þurfa að vera að bardúsa eitthvað og byrjaði viðskiptaferilinn snemma. Hér er hann á leið í hjólreiðatúr í Suður-Afríku til að kynna líkamsræktarstöðvakeðjuna sína, Virgin Active. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í dag sitja þau á gríðarlegum auðæfum og hafa mikil áhrif á allt frá dægurmenningu og tísku yfir í stjórnmál og gang efnahagslífsins.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í dag sitja þau á gríðarlegum auðæfum og hafa mikil áhrif á allt frá dægurmenningu og tísku yfir í stjórnmál og gang efnahagslífsins. En ríka og valdamikla fólkið var ekki alltaf vellauðugt og áhrifamikið eins og nýleg úttekt Business Insider minnir á.

Business Insider skoðaði lífshlaup nokkurra áberandi einstaklinga úr bandaríska viðskipta- og listalífinu og gaf lesendum skemmtilega samantekt um hvar fólkið var statt við 25 ára aldur. Sumir voru strax á þeim aldri búnir að slá í gegn og byrjaðir að raka inn milljónunum á meðan aðrir voru að gera afskaplega venjulega og óspennandi hluti og virtust ekkert líklegri en aðrir til að leggja heiminn að fótum sér.

Barþjónninn sem varð milljarðamæringur

Milljarðamæringurinn Mark Cuban var t.d. nýútskrifaður frá Háskólanum í Indiana og vann fyrir sér sem barþjónn auk þess að vinna sem sölumaður fyrir fyrirtæki sem seldi PC hugbúnað. Cuban var nýfluttur til Dallas, svaf á gólfinu í þriggja svefnherbergja íbúð sem hann deildi með sex öðrum. Í dag er Cuban 54 ára, á m.a. körfuboltaliðið Dallas Mavericks og er auður hans metinn á um 2,3 milljarða dala.

Viðskiptajöfurinn Lloyd Blankfein sem í dag stýrir Goldman Sachs var óhamingjusamur lögfræðingur þegar hann var 25 ára. Blankfein hafði reyndar byrjað ansi vel, með ferska lagagráðu frá ekki ómerkilegri háskóla en Harvard, og harla ólíklegt að hann ætti eftir að eiga í vandræðum með að finna vel launaða vinnu. Blankfein vann á ágætri stofu en reykti eins og strompur og tileinkaði sér fleiri slæma siði sem tóku sinn toll. Að eigin sögn fór Blankfein í gegnum tilvistarkreppu sem endaði með því að hann kvaddi lögfræðistofuna og snéri sér að fjárfestingarbankagrúski.

Branson blómstraði snemma

Richard Branson var við 25 ára aldur strax farinn að gera áhugaverða hluti í viðskiptalífinu. Hann opnaði fyrstu plötubúðina sína 20 ára gamall, hljóðupptökuver 22 ára og hleypti af stokkunum eigin útgáfufyrirtæki 23 ára. Um þrítugt var Virgin-veldið farið að teygja anga sína víða um heiminn. Í dag er Branson 62 ára og auður hans metinn á 4,6 milljarða dala.

Eldhúsgyðjan Martha Stewart var líka mjög efnileg við 25 ára aldurinn. Hún hafði m.a. starfað sem fyrirsæta og sem slík komið að verkefnum fyrir Unilever og Chanel. Ekki nóg með það heldur var Stewart ein af fáum konum sem störfuðu sem hlutabréfamiðlarar á Wall Street. Árið 1972, þegar hún var 31 árs, setti Stewart framann á hilluna og kvaddi Wall Street til að vera heimavinnandi húsmóðir. Samt fór það svo að ári síðar stofnaði hún veisluþjónustu og þar með varð til vísirinn að Mörthu Stewart-veldinu.

Loks má nefna rapparann Jay-Z. Í dag stýrir Shawn Corey Carter æði stóru viðskiptaveldi og er, auk tónlistarinnar, viðriðinn fataiðnaðinn, klúbba- og barrekstur, snyrtivöruframleiðslu, auk þess að eiga hlut í körfuboltaliðinu Brooklyn Nets. Ekki nóg með það heldur er Jay-Z kvæntur söngkonunni glæsilegu Beyoncé Knowles sem margir myndu segja að væri mun meiri fengur en öll auðæfin. Þeir sem telja sig eiga litla von í lífinu við 25 ára aldurinn ættu að finna huggun í sögu Jay-Z, en hann var á þeim aldri sama sem ósýnilegur í rappheiminum og náði ekki flugi fyrr en við 27 ára aldur að hann stofnar útgáfufyrirtækið Roc-A-Fella.