Páll Winkel
Páll Winkel
Sífellt fleiri erlendir ríkisborgarar sitja í gæsluvarðhaldi hér á landi. Þann 26. mars sl. sátu 26 einstaklingar í gæsluvarðhaldi og þar af voru tólf erlendir ríkisborgarar frá Afganistan, Litháen, Nígeríu, Póllandi, Spáni og Þýskalandi.

Sífellt fleiri erlendir ríkisborgarar sitja í gæsluvarðhaldi hér á landi. Þann 26. mars sl. sátu 26 einstaklingar í gæsluvarðhaldi og þar af voru tólf erlendir ríkisborgarar frá Afganistan, Litháen, Nígeríu, Póllandi, Spáni og Þýskalandi.

„Fjölgunin kemur til vegna meiri vinnu lögreglu og opnari landamæra,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. „Fyrir rúmum áratug höfðum við nánast enga útlendinga í fangelsunum.“

Á árunum 2000 til 2004 sátu að meðaltali þrír erlendir ríkisborgarar í gæsluvarðhaldi dag hvern og því er ljóst að töluverð fjölgun hefur verið síðastliðin ár.

Fjölgun útlendinga í fangelsunum skapar ákveðin vandamál. „Í mörgum tilvikum eru þetta einstaklingar sem tala hvorki íslensku né ensku,“ segir Páll. „Þeir eiga rétt á túlki og við gerum okkar besta til að veita þá þjónustu.“ Töluverður kostnaður fylgir þessari þjónustu og í sumum tilvikum tala einstaklingarnir tungumál sem enginn talar hér á landi. Að sögn Páls er gengjamyndun einnig vaxandi vandamál hér á landi, líkt og í öðrum löndum. Sumir fangar halda hópinn og mynda gengi innan fangelsanna. Lítið svigrúm er til að skipta þessum föngum upp og koma þannig fyrir myndun hópa af þessu tagi. Þetta gerir það að verkum að hér hafa myndast kjöraðstæður til myndunar tengslanets fyrir glæpamenn. Með nýju fangelsi á Hólmsheiði verður hægt að bregðast við þessu vandamáli. „Það verður hannað þannig að við getum verið með margar smáar deildir þar sem við getum skipt föngum upp,“ segir Páll. Fyrsta skóflustungan að nýja fangelsinu verður tekin fimmtudaginn 4. apríl nk. og stefnt er að opnun þess haustið 2015. larahalla@mbl.is