Uppgjör Barclays-banki er talinn hafa verið í miðju Libor-hneykslisins svokallaða og hefur þegar greitt stórar fjárhæðir vegna málsins.
Uppgjör Barclays-banki er talinn hafa verið í miðju Libor-hneykslisins svokallaða og hefur þegar greitt stórar fjárhæðir vegna málsins. — AFP
Dómstóll í New York hefur vísað frá kröfum skuldabréfaeigenda á hendur Bank of America, Barclays og JPMorgan Chase. Dómari tók þessa ákvörðun á föstudag og nær til u.þ.b. tveggja tuga tengdra mála sem voru fyrir dóminum.

Dómstóll í New York hefur vísað frá kröfum skuldabréfaeigenda á hendur Bank of America, Barclays og JPMorgan Chase. Dómari tók þessa ákvörðun á föstudag og nær til u.þ.b. tveggja tuga tengdra mála sem voru fyrir dóminum.

Libor-hneykslið komst í hámæli síðasta sumar en stórir alþjóðlegir bankar eru sakaðir um að hafa með óeðlilegum hætti haft áhrif á millibankavexti, svokallaða Libor-vexti. Lækkun Libor-vaxta hefur m.a. áhrif á vexti sem greiddir eru af fjölda samninga og skuldabréfa enda algengt að vaxtakjör séu tengd við Libor.

Fréttastofa Bloomberg segir að þó að mögulegur skaði af Libor-svindlinu geti numið milljörðum dala hafi dómari vísað kröfum skuldabréfaeigenda frá þar sem ekki þótti sýnt fram á það tjón sem Libor-svindlið ætti að hafa valdið þeim. Meðal kærenda í málunum sem úrskurðurinn nær til er skuldabréfamiðlunin Charles Schwab Corp og lífeyrissjóðir.

Dómarinn tók fram í úrskurði sínum að frávísunin ætti ekki að hafa áhrif á möguleika stjórnvalda í Bandaríkjunum eða öðrum löndum að sækja mál gegn bönkunum á grundvelli laga um ólöglegt samráð.

ai@mbl.is