Handbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Við vorum á æfingu áðan og staðan á mannskapnum er bara þokkaleg.

Handbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Við vorum á æfingu áðan og staðan á mannskapnum er bara þokkaleg. Þeir sem eru staddir hérna eru allir klárir í slaginn,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handknattleik, í gærkvöld.

Ísland mætir Slóveníu í mikilvægum leik í Maribor annað kvöld kl. 18.15 í undankeppni EM sem fram fer í Danmörku í janúar. Liðin mætast svo að nýju í Laugardalshöll á sunnudag. Ísland er með fullt hús stiga í riðlinum eftir sigra á Rúmenum og Hvít-Rússum fyrr í vetur en Slóvenar með 3 stig.

Kári góður eftir aðgerðina

Íslenski hópurinn kom saman í Grosswallstadt til æfinga, og æfir þar í dag áður en hann heldur til Slóveníu eftir hádegi. Róbert Gunnarsson línumaður verður ekki með liðinu þar vegna meiðsla, heldur ferðast til Íslands og er vonast til þess að hann geti spilað í Höllinni. Vegna fjarveru hans, og í ljósi þeirrar staðreyndar að Kári Kristján Kristjánsson hefur ekki spilað síðustu vikur vegna aðgerðar þar sem góðkynja æxli var fjarlægt úr baki hans, má ætla að óreyndari línumenn muni þurfa að láta til sín taka. Jón Þorbjörn Jóhannsson og Atli Ævar Ingólfsson eru báðir með íslenska liðinu þar ytra.

„Það eru líkur á því að annar þeirra þurfi að spila eitthvað en Kári leit mjög vel út á æfingunni áðan. Vonandi verður bara áframhald á því,“ sagði Aron, sem fagnar endurkomu þeirra Rúnars Kárasonar og Alexanders Peterssonar á hægri vænginn en báðir misstu af HM á Spáni.

Alexander spilar á fullu

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt að fá þá báða inn í hópinn aftur. Rúnar er auðvitað tiltölulega nýkominn til baka eftir krossbandaslit en er búinn að vera þokkalega sterkur með Grosswallstadt. Alexander er búinn að vera að spila með sínu félagsliði en á samt í sínum vandræðum með öxlina. Hann er ekki í sínu besta standi hvað það varðar en spilar á fullu með sínu liði og mun spila á fullu með okkur. Það styrkir klárlega hópinn að fá þessa menn sem og Ólaf Bjarka [Ragnarsson],“ sagði Aron.

Slóvenía varð í 4. sæti á HM á Spáni og í 6. sæti á EM í fyrra, en Aron segir stefnt á tvo sigra gegn þessu sterka liði.

„Við erum að fara út í mjög erfiðan leik. Við vitum að Slóvenarnir eru alveg gríðarlega sterkir. Þeir spila góðan varnarleik og markverðirnir þeirra stóðu sig mjög vel á HM á Spáni. Þeir geta bæði boðið upp á 3-2-1 varnarleik og svo „aggressíva“ 6-0 vörn. Í sókninni eru þeir svo með mjög klóka leikmenn, sem eru góðir í að spila maður gegn manni. Það er ekki að ástæðulausu sem þetta lið varð í 4. sæti á HM,“ sagði Aron.

„Við förum í báða þessa leiki til að vinna en við vitum að það verður við ramman reip að draga, sérstaklega á þessum erfiða útivelli. Það verður mikil stemning og mikil læti þar, og augljóst að okkar bíður afar erfiður leikur,“ bætti landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson við.

Slóvenía
» Slóvenía varð í 4. sæti á HM í handbolta á Spáni fyrr á árinu. Í fyrra varð það í 6. sæti á EM í Serbíu
» Liðið er stigi á eftir Íslandi í undankeppni EM 2014 eftir að hafa gert jafntefli við Hvíta-Rússland í nóvember
» Tvö efstu lið riðilsins komast í úrslitakeppnina í Danmörku.