Forarsvað Sveitarfélagið Ölfuss fékk fimm milljón króna styrk til hönnunar og framkvæmda við gönguleið í Reykjadal í Ölfusi. Þar var þessi mynd tekin í fyrrasumar en dalurinn verður sífellt vinsælli til útivistar.
Forarsvað Sveitarfélagið Ölfuss fékk fimm milljón króna styrk til hönnunar og framkvæmda við gönguleið í Reykjadal í Ölfusi. Þar var þessi mynd tekin í fyrrasumar en dalurinn verður sífellt vinsælli til útivistar. — Morgunblaðið/Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafði aldrei verið eins bólginn og í upphafi árs þegar hann hafði 575,6 milljónir til umráða, samkvæmt fjárlögum.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafði aldrei verið eins bólginn og í upphafi árs þegar hann hafði 575,6 milljónir til umráða, samkvæmt fjárlögum. Hratt gengur á sjóðinn því þegar er búið að úthluta 300 milljónum í tveimur úthlutunum. Þriðja úthlutun er á dagskrá 10. apríl. Þá gæti sjóðurinn tæmst en aðeins í bili því næstu tvö ár er stefnt að því að um það bil sama upphæð eða hærri renni í hann.

Í byrjun febrúar úthlutaði sjóðurinn rúmlega 150 milljónum til 44 verkefna og var meðalstyrkupphæðin um 3,4 milljónir. Hæsti styrkurinn, 20 milljónir, rann til Fornleifaverndar ríkisins vegna skipulags og uppbyggingar að Stöng í Þjórsárdal. Næsthæsta styrkinn, upp á 10 milljónir, hlaut Hveravallafélagið sem ætlar að verja honum til að vinna skipulag fyrir Hveravelli, stýra umferð ferðamanna, tryggja vatnsöflun o.fl. Meirihluti fjárins í þessari 150 milljóna úthlutun rann til sveitarfélaga, rúmlega 80 milljónir og rúmlega 34 milljónir komu í hlut ríkisstofnana.

Í lok febrúar úthlutaði sjóðurinn 147 milljónum til þriggja opinberra aðila. Umhverfisstofnun fékk 75 milljónir vegna þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum fékk tvo styrki, samtals upp á 20 milljónir, annars vegar vegna tenginga á palli við rampa í Almannagjá og hins vegar til að ganga frá hlaði ofan Almannagjár og gera upplýsingaskilti. Þá hlaut Vatnajökulsþjóðgarður tvo styrki upp á 52 milljónir, vegna 1. áfanga þjónustumiðstöðvar vestan við Dettifoss og til að bæta aðgengi ferðamanna að Eldgjá.

Upphaflega átti að fjármagna framkvæmdasjóðinn með farþega- og gistináttagjaldi. Þetta reyndist á hinn bóginn ekki vera sú tekjulind sem stjórnvöld ætluðu og var því bætt í. Sjóðurinn fær 60% af þeim gjöldum sem eru innheimt, nú 75,6 milljónir, en 40% renna til umhverfisráðuneytisins. Í fjárlögum ársins 2013 fær sjóðurinn að auki 500 milljóna tímabundið framlag á ári og er það hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar 2013-2015. Sú áætlun er fjármögnuð annars vegar með veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Í fjárlögum er bent á að þessi tekjuöflun feli í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og söluhagnað af eignasölu. Framlögin geti því tekið breytingum við endurskoðun fjárlaga hvers árs.

Tilkynnt í næstu viku

En er á meðan er. Stjórn framkvæmdasjóðsins er nú að leggja lokahönd á tillögu um þriðju úthlutun ársins og mun kynna hana fyrir atvinnuvegaráðherra innan skamms, en strangt til tekið er það hans að úthluta fénu. Umsóknir að þessu sinni voru rúmlega 100 og standist þær kröfur gæti úthlutunin numið um 278 milljónum, að sögn Helgu Haraldsdóttur, skrifstofustjóra ferðamála í atvinnuvegaráðuneytinu. Heildarupphæð umsókna sé töluvert hærri en það fé sem er til ráðstöfunar, eins og jafnan, en ekki mikið hærra. Þá geti þeir sem fái synjun nú sótt um aftur.

FJÁRFESTINGAR

Sjóðurinn vill mótframlag

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, sagði mbl.is frá því 18. mars sl. að þjóðgarðurinn hefði sótt um 160 milljóna styrk til sjóðsins til að stækka bílastæðið við Hakið, ofan við Almannagjá, en þar myndast örtröð ferðamanna á annríkisdögum. Þeirri umsókn var synjað en þess í stað fékk þjóðgarðurinn 20 milljónir, með skilyrði um jafnhátt mótframlag. Þá upphæð sagðist Ólafur Örn ekki eiga til og var hann undrandi yfir niðurstöðunni.

Helga Haraldsdóttir bendir á að sjóðurinn veiti að jafnaði ekki hærri styrki en sem nemi helmingi kostnaðar við verkefni. Þeir sem fái úthlutað úr sjóðnum verði að leggja jafn háa upphæð á móti. Margir leggi fram enn stærri hluta kostnaðar.

Þá minnir hún á að skv. fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar renni 250 milljónir til umhverfis- og auðlindaráðuneytis en undir það heyri m.a. málefni þjóðgarðsins á Þingvöllum.