<strong>Skagafjörður</strong> Háspennulínan frá Blöndu mun, ef af framkvæmdum verður, liggja þvert yfir sveitir þar sem Mælifellshnjúkur er svipsterkt kennileiti.
Skagafjörður Háspennulínan frá Blöndu mun, ef af framkvæmdum verður, liggja þvert yfir sveitir þar sem Mælifellshnjúkur er svipsterkt kennileiti. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum tilbúin að halda málstað okkar hátt á lofti.

„Við erum tilbúin að halda málstað okkar hátt á lofti. Það eru haldbær rök fyrir því að fyrirhugaðar framkvæmdir verði endurskoðaðar og raflínan lögð í jörð í stað þess að hér verði sett upp háspennumöstur sem myndu hafa mikil áhrif á ásýnd landsins. Jarðstrengir ættu ekki að verða óhóflega dýrari valkostur miðað við loftlínur. Fórnarkostnaður sá sem fylgir loftlínum er heldur aldrei tekinn með í dæmið,“ segir Helga Rós Indriðadóttir leiðsögumaður á Háubrekku í Skagafirði.

Íbúar í framanverðum Skagafirði eru ósáttir við fyrirætlanir Landsnets um lagningu 220 kV loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar. Tveir valkostir eru um línustæði í Skagafirði, í báðum tilvikum væri farið þvert yfir í framanverðum firði og þaðan um Norðurárdal til Akureyrar.

„Nei, fólk hér óttast ekki að þetta rýri verðgildi jarða. Við horfum á þetta í víðara samhengi, til dæmis að verði þessar fyrirætlanir að veruleika muni það spilla náttúru og draga úr möguleikum landbúnaðar og ferðaþjónustu. Þá er fráleitt að skattgreiðendur niðurgreiði raforku til stóriðju enn frekar,“ segir Helga um þessar fyrirætlanir sem Landsnet kynnti fyrst árið 2008. Alls yrði línan 107 km löng, reist yrðu alls 340 möstur, 23 metra há. Línuvegir yrðu um 150 km, að því er fram kemur í skýrslu um umhverfisáhrif. sbs@mbl.is