Sumarliði „Verkalýðshreyfingin, og þar með Alþýðusambandið, er mikilvægasta félagshreyfing þjóðarinnar.“
Sumarliði „Verkalýðshreyfingin, og þar með Alþýðusambandið, er mikilvægasta félagshreyfing þjóðarinnar.“ — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er því ekki að rekja nákvæmlega hvað menn voru að gera og hugsa hjá Alþýðusambandinu.

„Ég er því ekki að rekja nákvæmlega hvað menn voru að gera og hugsa hjá Alþýðusambandinu. Ég er frekar að reyna að tengja Alþýðusambandið við breytingar á samfélaginu og lýsa því hvernig Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin almennt eiga þátt í þeim breytingum. Þetta finnst mér það áhugaverðasta í sögu sambandsins.“

Viðtal

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Saga Alþýðusambands Íslands er komin út í tveimur veglegum bindum og er þar sögð saga ASÍ og íslenskrar verkalýðsbaráttu í heila öld en sambandið var stofnað árið 1916. Fyrra bindið heitir Í samtök en hið síðara Til velferðar . Forlagið gefur verkið út í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og höfundur er Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur. Hann hefur unnið að sögurituninni í nokkur ár og viðað að sér afar umfangsmiklum heimildum um íslenska alþýðusögu og samfélagsmál.

„Þetta er ekki hefðbundin stofnanasaga á þann hátt að Alþýðusambandið sé stöðugt í fókus. Verkið fjallar ekki síst um það hvernig verkalýðshreyfingin á þátt í því að breyta samfélaginu. Það er markmiðið sem ég hafði í huga þegar ég fór af stað með ritun verksins,“ segir Sumarliði. „Ég er því ekki að rekja nákvæmlega hvað menn voru að gera og hugsa hjá Alþýðusambandinu. Ég er frekar að reyna að tengja Alþýðusambandið við breytingar á samfélaginu og lýsa því hvernig Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin almennt eiga þátt í þeim breytingum. Þetta finnst mér það áhugaverðasta í sögu sambandsins.“

Hvernig breyttist hlutverk Alþýðusambandsins með árunum?

„Fyrsta aldarfjórðunginn var Alþýðusambandið í rauninni bæði stjórnmálaflokkur og samband verkalýðsfélaga og starf sambandsins hverfðist því mikið um kosningar og pólitík. Þetta breyttist smám saman eftir að skilið var þarna á milli. En það er aðallega á sjöunda og áttunda áratugnum sem Alþýðusambandið fer að breytast í það horf sem við þekkjum núna, og verður þetta miðlæga afl sem verkalýðsbaráttan snýst um.“

Svipmiklir leiðtogar

Fyrra bindið af sögu Alþýðusambandsins ber undirtitilinn Í samtök og nær yfir tímabilið 1916-1960 og hið síðara kallast Til velferðar og nær frá 1960-2010. Af hverju þessi skil? „Að mörgu leyti er þægilegt að hafa skilin á þessari sögu um 1960,“ segir Sumarliði. „Það var svo margt að breytast í samfélaginu á þessum tíma. Það urðu til dæmis miklar breytingar í stjórnmálalífi á sjöunda áratugnum. Þá fór að draga mjög úr tökum stjórnmálaflokkanna á hreyfingunni, en þau höfðu verið mikil. Þá urðu þær mikilvægu breytingar að verkalýðshreyfingin fór að vinna mun nánara með ríkisvaldinu en verið hafði. Ávöxtur af því samstarfi varð til dæmis byggðin í Breiðholtinu. Síðar kom bakslag í þessa samvinnu á áttunda áratugnum. Það var svo ekki fyrr en 1990 með þjóðarsáttinni sem almenn samstaða varð um það að einmitt svona ætti að vinna hlutina.“

Hvaða leiðtogar í sögu Alþýðusambandsins hafa verið mest áberandi?

„Það er ekki spurning hvort maður nefni einhverja heldur hverja. Jón Baldvinsson leiddi sambandið frá 1916 til 1938. Hann setti mikinn svip á starfsemina og var um leið formaður Alþýðuflokksins. Hannibal Valdimarsson er einn af stóru leiðtogum Alþýðusambandsins frá 1954-1971. Jón Baldvinsson er sá sem hefur setið lengst sem forseti Alþýðusambandsins en Hannibal er næstur í röðinni og var óskoraður leiðtogi og svo auðvitað Björn Jónsson á eftir honum. Að öðrum ólöstuðum voru þetta mjög öflugir leiðtogar, og kannski sérstaklega Hannibal sem lét að sér kveða á nýjum sviðum. Hann beitti sér til dæmis í jafnréttismálum af miklu meiri krafti en gert hafði verið fram að því.“

Mikilvægar félagshreyfingar

Ef við lítum yfir sögu sambandsins, hversu miklu máli hefur Alþýðusambandið skipt fyrir Íslendinga?

„Ég held að það hafi skipt meginmáli. Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin eiga þátt í því að til varð velferðarsamfélag á Íslandi. Verklýðshreyfingin gegndi þar lykilhlutverki. Það var verkalýðshreyfingin sem beitti sér fyrir því að koma á vökulögum upp úr 1920, slysatryggingum á þriðja áratugnum, alþýðutryggingum, atvinnuleysistryggingum og svona er hægt að telja áfram. Verkalýðshreyfingin, og þar með Alþýðusambandið, er mikilvægasta félagshreyfing þjóðarinnar.“

Í bókunum, sem eru samtals nær 800 blaðsíður í stóru broti, er að finna mörg hundruð myndir sem tengjast íslenskri verkalýðsbaráttu og alþýðusamtökum og var víða leitað fanga við öflun mynda. „Ég reyndi að komast yfir eins mikið af myndum og ég gat,“ segir Sumarliði. „Söfnin í Reykjavík eru stór, bæði myndadeildin á Þjóðminjasafninu og Ljósmyndasafnið. Margar myndanna eru þaðan en svo eru myndir víða að, eins og frá Minjasafninu á Akureyri og frá Ísafirði, Siglufirði, Egilsstöðum og Vestmannaeyjum. Myndirnar tengjast því hvernig ég hugsaði þetta verk. Mér fannst mikilvægt að reyna að gera grein fyrir lífi fólks á þessum tíma, draga fram í hvernig húsakynnum það bjó, hvernig það klæddi sig og hvað það borðaði. Það er auðveldara að sýna hvernig fólk er klætt á ljósmynd heldur en að segja frá því. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að mér fannst mikilvægt að nota mikið af myndum. Og svo eru líka í bókinni grafískar skýringamyndir sem sýna breytingar til dæmis varðandi atvinnuleysi, kaupmátt og félagslegt húsnæði, svo nokkuð sé nefnt.“