Ragnar Svafarsson fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1947. Hann varð bráðkvaddur 19. mars 2013.

Foreldrar Ragnars voru Svafar Steindórsson, f. 8.2. 1915, d. 15.8. 1991 og Guðrún Aradóttir, f. 27.4. 1909, d. 2.1. 1984. Systir Ragnars er Dóra María Sølvberg, f 10.2. 1944, gift Ingibrit Sølvberg, þau eiga tvö börn. Systur samfeðra eru Svava og Elísabet.

Ragnar giftist 19.3. 1967, Stellu Magnúsdóttur, f. 23.6. 1946, í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Magnús Magnússon, f. 21.1. 1910, d. 30.10. 1971 og Jóhannna Árnadóttir, f. 4.10. 1912, d. 5.11. 1987. Synir þeirra eru: 1) Svafar, f. 23.5. 1967, í sambúð með Svövu Margréti Blöndal Ásgeirsdóttur, f. 27.1. 1974. Sonur þeirra er Patrekur, f. 2008. Sonur Svövu og stjúpsonur Svafars er Anton Pétur, f. 1996. 2) Magnús Örn, f. 21.1. 1970, d. 2.12. 2010, giftur Piu Kousgaard, f. 13.5. 1975. Börn þeirra Selma, f. 2001 og Alex, f. 2005. 3) Gunnar Már, f. 20.5. 1973, giftur Hrafnhildi H.K. Friðriksdóttur, f. 10.10. 1967. Börn þeirra Eiður Örn, f. 1996 og Sara Sif, f. 1999. 4) Stefán Ragnarsson, f. 8.6. 1977, í sambúð með Árnýju Láru Karvelsdóttur, f. 14.6. 1981.

Ragnar stundaði nám í húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 1967. Vann hann ýmis störf í kjölfarið á því. Ragnar vann í sportvöruversluninni Sportval frá 1976 og var þar í átta ár en síðastliðin 29 ár hefur hann unnið í BYKO. Ragnar hafði ávallt gaman af dansi og byrjaði 16 ára að dansa og sýna með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur.

Útför Ragnars fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 2. apríl 2013, kl. 13.

Okkur setti hljóð við þær fregnir að vinnufélagi og vinur okkar, hann Ragnar Svafarsson, væri látinn.

Við vorum lánsöm að fá að kynnast Ragnari, eða Ragga rokk eins og hann var stundum kallaður af vinum og vinnufélögum. Raggi var mikill reddari, „alt mulig mand“ og fátt sem vafðist fyrir honum, enda kom hann víða við þau tæp 30 ár sem hann vann hjá BYKO. Hann var aðstoðarverslunarstjóri í verslun BYKO Breidd, hann var lagerstjóri, sölumaður, vann við leigumarkaðinn og við hinar ýmsu breytingar á verslunum fyrirtækisins. Ragnar var ávallt kallaður til þegar kom að uppsetningu verslunar eða þegar verslanir voru fluttar eða laga þurfti til. Þar var Raggi í essinu sínu og gat hann miðlað af sinni miklu reynslu enda með eindæmum nákvæmur í verki.

Það var gaman að vinna með Ragga. Hann hafði gaman af því að segja sögur, bæði af sjálfum sér og öðrum. Þegar hann var að segja viðskiptavininum til með sínu rólega fasi og þolinmæði lagði hann verkefni fyrir viðskiptavininn svo hann bæði skildi þau og gat farið ánægður heim. Þannig var Raggi, alltaf að ráðleggja og segja til.

Það er svo stutt síðan við vorum með honum og Stellu á árshátíð Norvíkur í Broadway, en þar eins og venjulega dansaði hann sitt rokk, kannski lágstemmdara en áður. Raggi var duglegur að mæta á allar samkomur á vegum BYKO og starfsmannafélagsins. Við eigum eftir að sakna Ragga, því það fór ekki á milli mála þegar hann var á staðnum. Það var gott að vera í nálægð við hann.

Hvíli hann í friði.

Starfsmenn BYKO senda fjölskyldunni sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Heiðar Bergmann

Heiðarsson.