Glæsimark Demba Ba var í gjörgæslu varnarmanna United en þeir sofnuðu einu sinni á verðinum og þá skoraði Senegalinn gullfallegt mark.
Glæsimark Demba Ba var í gjörgæslu varnarmanna United en þeir sofnuðu einu sinni á verðinum og þá skoraði Senegalinn gullfallegt mark. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Ekkert lið hefur unnið ensku bikarkeppnina oftar en Manchester United. Því hefur þó gengið bölvanlega að vinna bikarinn undanfarin ár en níu ár eru síðan liðið fagnaði síðast sigri í keppninni.

England

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Ekkert lið hefur unnið ensku bikarkeppnina oftar en Manchester United. Því hefur þó gengið bölvanlega að vinna bikarinn undanfarin ár en níu ár eru síðan liðið fagnaði síðast sigri í keppninni. Þá vann United B-deildar lið Millwall í úrslitum, 3:0.

Manchester United þarf að bíða að minnsta kosti í eitt ár til viðbótar því það var slegið úr keppni í gær af Chelsea, 1:0, með fallegu marki Senegalans, Demba Ba.

Chelsea hefur gengið frábærlega í bikarnum á þessari öld og sérstaklega undanfarin ár. Liðið hefur fagnað sigri fimm sinum í keppninni frá árinu 2000, fjórum sinnum á síðustu sex árum.

Þreytan sagði til sín

Jafntefli liðanna í fyrri leiknum á Old Trafford fór illa með skrifstofufólkið hjá enska knattspyrnusambandinu sem þurfti að troða leiknum á annan dag páska þrátt fyrir að bæði lið hafi spilað í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Og leikurinn bar það með sér. Fyrstu 30 mínútur leiksins voru hreint út sagt skelfilegar og fyrri hálfleikurinn ekkert augnakonfekt. Það lifnaði þó yfir mönnum í seinni hálfleik, sérstaklega eftir glæsilegt mark Demba Ba á 49. mínútu.

„Við töluðum um Demba Ba fyrir leikinn og hvernig það var fyrir leikmennina að mæta honum þegar hann spilaði fyrir Newcastle. Hann skoraði alveg eins mark fyrir Newcastle á móti okkur og við vorum aftur gripnir í bólinu,“ sagði Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir leikinn.

Man. City bíður

Chelsea mætir Manchester City í undanúrslitum á Wembley en Chelsea líður afskaplega vel á þeim velli enda lyft bikarnum fjórum sinnum síðan hann var tekinn í gagnið árið 2007.

Flestir búast við því að sigurvegarinn úr undanúrslitaviðureign Chelsea og City standi uppi sem sigurvegari þar sem í hinum undanúrslitaleiknum mætast B-deildarlið Millwall og Wigan.

„Ég er mjög ánægður því leikmennirnir stóðu sig vel. Manchester United er mjög gott lið en við gerðum vel í dag. Jafnvægið var gott á milli varnar og sóknar. Við lendum stundum í vandræðum með líkamlegan styrk United-liðsins en við vorum miklu betri með boltann. Markið hjá Demba Ba var alveg frábært en frammistaða allra var mjög góð,“ sagði Rafael Benítez.