Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Gerald Sullenberger: "Eftirlitsmenn fylgjast grannt með því að reglum ESB sé fylgt og kostnaðinn við eftirlitið greiða skattborgarar þessa lands."

Það er óþolandi fyrir neytendur að opinberir eftirlitsaðilar verji tugum, ef ekki hundruðum milljóna króna á ári til að halda uppi matarverði og stuðla að einhæfu vöruframboði. Það er gert með skipulögðum viðskiptaþvingunum gegn ríkjum utan Evrópusambandsins (ESB).

Þetta eru afleiðingar þeirrar undarlegu ákvörðunar stjórnvalda að innleiða athugasemdalaust óbreytt reglugerðafargan ESB vegna framleiðslu og innflutnings matvæla frá Bandaríkjunum án þess að skoða áhrif þess fyrir neytendur.

Stjórnvöld segjast þurfa að virða reglur ESB um innihaldsmerkingar matvöru og þær kröfur ESB að sambandið verði að viðurkenna bandaríska matvælaframleiðendur sem flytja vörur til Evrópu. Þetta er í besta falli hálfsannleikur. Um er að ræða stjórnvaldsákvarðanir en ekki reglugerðir sem okkur ber að hlíta. Tilgangur ESB er að vernda matvælaframleiðslu í ESB-löndum með því að hindra sem mest innflutning á viðurkenndum amerískum matvörum sem hundruð milljóna manna neyta daglega. Allir muna eftir banni ESB á innflutningi á bognum bönunum hér um árið frá ríkjum utan ESB og nýlegt mál varðandi gamla góða Cocoa Puffsið.

Innihaldslýsingar á evrópskum matvælum eru nákvæmar og upplýsandi. Það sama á við um bandarískar matvörur, enda er framleiðsla matvöru í BNA háð ströngu eftirliti Matvælastofnunar Bandaríkjanna (Food and Drug Administration) í Washington. Eini munurinn á framsetningu upplýsinganna er að í BNA er innihaldið miðað við áætlaðan neysluskammt vörunnar en í Evrópu er framleiðendum gert að tilgreina innihald í hverjum hundrað grömmum matvörunnar.

Í báðum tilvikum eru neytendur upplýstir um innihald, hlutfall næringarefna, fitu, sykurs og annarra efna. Evrópskir neytendur þurfa að áætla þyngd vörunnar og reikna út innihald út frá 100 grömmum meðan bandarískir neytendur miða við skammtastærð. Furðulegt er að önnur aðferðin sé bönnuð en hin leyfð, því báðar segja það sama. Erfitt er að sjá hvaða rök mæla gegn því að báðar skráningaraðferðirnar séu viðurkenndar af yfirvaldinu.

Þar sem ólöglegt er að bjóða íslenskum neytendum matvöru sem merkt er með amerísku aðferðinni þurfa innflytjendur að endurreikna innihald matvörunnar úr skammtastærð yfir í 100 grömm, prenta á límmiða sem komið er fyrir á hverri einustu pakkningu sem sett er í hillur verslunarinnar. Kostur hefur ráðið tvo matvælafræðinga til þess að sinna þessum endurreikningum. Eftirlitsmenn fylgjast síðan grannt með því að reglum ESB sé sannarlega fylgt og kostnaðurinn við eftirlitið greiða skattborgarar þessa lands.

Með þessu móti getur ESB skrúfað fyrir innflutning þekktra matvæla t.d. frá KRAFT, Kellogg's, Hunt's og Campell nema til komi kostnaður við eftirlit og endurmerkingar sem getur hækkað vöruverðið 15% til 40%. Neytendum munar um minna.

Dapurt dæmi um þessa ESB endaleysu eru möndlur frá bandaríska framleiðandanum Kirkland sem Kostur flytur inn (sjá mynd). Eftirlitsaðilar komu í Kost og tóku þær traustataki því upprunavottorð vantaði. Framleiðandinn leggur ekki í þann kostnað fyrir eitt vörubretti af möndlum. Kostur þurfti þá að flytja bandarísku möndlurnar frá Bretlandi, því þar var sama vara komin með rétt vottorð frá ESB. Viðskiptavinir Kosts geta því áfram keypt Kirkland-möndlur en þurfa nú að greiða 20% hærra verð fyrir þær. Þetta „drama“ bitnar því á íslenskum neytendum.

Annað dæmi um reglufár ESB, sem vel er passað upp á, var innleitt til þess að vernda evrópska matvælaframleiðslu með öllum tiltækum ráðum, hversu heimskulegt sem það kann að vera. Hið þekkta bandaríska krydd, Season All, er vinsælt og fékkst hér árum saman. Nú er óheimilt að flytja það inn frá Bandaríkjunum vegna þess að það inniheldur náttúrulegt litarefni sem unnið er úr annatto-fræjum. Banninu virðist eingöngu vera ætlað að vernda ESB-kryddframleiðendur enda er evrópskum matvælaframleiðendum fyllilega heimilt að nota það og hafa gert frá því fyrir árið 1870. Efnið, sem einnig er kallað E160b, er meðal annars notað í ostagerð víða um Evrópu, þ.m.t. hér á landi. „Það sem gefur Maribó-ostinum sinn einkennandi appelsínugula lit er annatto-fræið sem mikið er notað í suðurameríska matargerð,“ segir á heimasíðu MS, en hér er það notað í íslensku Maribo- og Cheddar-ostana. En Íslendingar mega samt ekki kaupa Season All.

Þótt reglufarganið sé farsakennt er fáum skemmt. Það leiðir af sér afar einsleitt vöruframboð í íslenskum verslunum og kostnaðurinn við að framfylgja því er verulegur. Það yrði því til mikilla hagsbóta fyrir íslensk heimili ef stjórnvöld hættu þessari vitleysu. Hvað ætlar útþaninn eftirlitsiðnaður stjórnvalda að gera þegar ESB og BNA hafa gert með sér fríverslunarsamning í lok árs 2014? Þá opnast markaðir ESB og BNA upp á gátt fyrir vörur hvor annars. Föllum við Íslendingar þá milli skips og bryggju?

Höfundur er eigandi Kosts.