Markaskorari Katrín Ómarsdóttir hefur sannað sig sem markaskorari með íslenska landsliðinu og er nú farin að þenja netmöskvana í búningi Liverpool en hún skaut liðinu í undanúrslit enska bikarsins með marki um helgina.
Markaskorari Katrín Ómarsdóttir hefur sannað sig sem markaskorari með íslenska landsliðinu og er nú farin að þenja netmöskvana í búningi Liverpool en hún skaut liðinu í undanúrslit enska bikarsins með marki um helgina. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það kom fyrirgjöf frá hægri, framherjinn okkar tók boltann á kassann og lagði hann út til mín þar sem ég hitti boltann vel og hann endaði inni.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það kom fyrirgjöf frá hægri, framherjinn okkar tók boltann á kassann og lagði hann út til mín þar sem ég hitti boltann vel og hann endaði inni. Það var mikill léttir að skora því það var farið að taka á taugarnar að við skyldum ekki nýta færin okkar,“ sagði Katrín Ómarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, sem skaut sínu nýja liði Liverpool í undanúrslit ensku bikarkeppninnar um helgina með marki á ögurstundu í 2:1 sigri á Sunderland.

Sunderland leikur ekki í sterkustu deild Englands en hefur unnið þá næststerkustu síðustu ár. Ljóst er að andstæðingurinn í undanúrslitunum verður enn sterkari því það verður sigurvegarinn úr leik Englandsmeistara Arsenal og silfurliðs Birmingham.

„Það verður virkilega erfitt verkefni en það eru skemmtilegustu verkefnin. Það er allt hægt í bikarnum og að vinna hann er raunhæft einsog allt annað,“ sagði Katrín. Hún kom til Liverpool í vetur líkt og á annan tug leikmanna en ljóst er að liðið ætlar sér að gera betur en síðustu ár, þegar það hefur endað á botni deildarinnar, þegar ný leiktíð hefst í deildinni í apríl.

Heiður að spila fyrir þetta félag

„Það er að koma mynd á liðið hægt og sígandi. Það tekur tíma að læra inn á hver aðra en vonandi verður það bara betra og betra með tímanum. Það væri flott að enda í einu af fjórum efstu sætunum, og mjög gott að enda í efstu tveimur,“ sagði Katrín sem verður alveg vör við það að hún sé á mála hjá einu söguríkasta knattspyrnufélagi heims. Einhver tengsl eru á milli karla- og kvennaliðsins og á dögunum æfðu þau saman, en þá var Katrín vant við látin með íslenska landsliðinu.

„Auðvitað er það heiður að spila fyrir svona söguríkt félag með miklar hefðir og menningu. Andrúmsloftið hérna er mjög jákvætt og fólk tilbúið að gera hvað sem er fyrir klúbbinn.

Við erum í tengslum við karlaliðið þegar það eru svona „promotional events“. Við æfum þar sem akademían æfir og erum með eigið þjálfarateymi. Ég veit ekki hvort það verður svona sameiginleg æfing oftar, en það yrði gaman því ég er viss um að [Luis] Suárez og [Steven] Gerrard hafi verið svekktir að missa af æfingu með mér,“ sagði Katrín, létt í bragði að vanda.