Ólafur Bergmann Stefánsson fæddist í Reykjavík 12. september 1926. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli þann 21. mars 2013.

Foreldrar hans voru Kristín Þórkatla Ásgeirsdóttir frá Fróða á Snæfellsnesi, f. 26. febrúar 1900, d. 26. júlí 1990, og Stefán Einarsson, húsasmíðameistari, f. 22. mars 1896 að Hofgörðum í Staðarsveit, d. 16. mars 1980.

Systkini Ólafs voru Einar Stefánsson, f. 1923, d. 1995, og Soffía Stefánsdóttir Carlander, f. 1924, d. 2006.

Ólafur kvæntist 2. maí 1952 Vilhelmínu Norðfjörð Baldvinsdóttur. Þau bjuggu fyrstu árin í Keflavík hvar Ólafur starfaði sem flugumsjónarmaður á vellinum en fluttu svo til Reykjavíkur, í Vesturbæinn, í byrjun sjöunda áratugarins. Síðustu 35 árin bjuggu þau á Seltjarnarnesi.

Þau eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Stefán Norðfjörð, prentari og glerlistamaður, f. 23. ágúst 1952. Barn hans er Katrín, viðskiptafræðingur og matvælafræðingur, f. 18. júní 1981. 2) Guðrún Elín (Gunnella), myndlistarkona, f. 6. júlí 1956, gift Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra, f. 17. desember 1955. Börn þeirra eru: Sveinn Rúnar, læknir, f. 24. desember 1976, og Ragnhildur Kristín, f. 26. apríl 1987. 3) Ólafur Norðfjörð, bílamálari og réttingarmaður, f. 12. desember 1959. Barn hans er Karlotta Sif hjúkrunarfræðingur, f. 11. febrúar 1985. 4) Sverrir Stormsker, tónlistarmaður og rithöfundur, f. 6. september 1963. Barn hans er Hildur Björk, f. 1. september 1989.

Ólafur vann hjá Flugfélagi Íslands allan sinn starfsaldur. Hann var einn fyrstur Íslendinga sem fór utan til flugumsjónarnáms. Hann nam fræðin í Southampton og New York 1951-2.

Í upphafi störfuðu íslenskir flugumsjónarmenn hjá ríkinu og voru þá í heildarsamtökum BSRB án þess að vera með sérstakt félag. Það voru síðan flugumsjónarmenn á Keflavíkurflugvelli sem ákváðu að stofna stéttarfélag, Félag íslenskra flugumsjónarmanna árið 1954. Ólafur var kosinn fyrsti formaður félagsins. Hann var endurkjörinn 1956. Árið 1973 sameinuðust Flugfélag Íslands og Loftleiðir í nýtt eignarhaldsfyrirtæki, Flugleiðir, og starfaði Ólafur þar til starfsloka.

Útför Ólafs fór fram í kyrrþey frá Grafarvogskirkju 27. mars 2013, að ósk hins látna.

Pabbi, eða „kallinn“ eins og hann jafnan var kallaður af okkur í fjölskyldunni, var margslunginn náungi. Hann var mjög vinsæll meðal samstarfsmanna sinna hjá Flugfélaginu og þar var hann í góðum flug-félagsskap. Heima var hann ekki í alveg jafn góðum félagsskap, enda við krakkarnir frekar þreytandi kvikindi. Hann gat verið fljótur upp og jafn fljótur niður aftur – líka tröppurnar. Minnti soldið á John Cleese í Fawlty Towers. Hann var mínútugæi og skelfilega samviskusamur. Allt varð að vera 100% og hann þoldi ekkert fúsk og rugl. Hann hafði gaman af að gleðjast með góðum, sem sagt er, en alltaf mætti kallinn í vinnuna, bláedrú, á mínútunni, alveg fjallfrískur og sprellfjörugur, og í þannig skapi var hann alveg þangað til hann kom heim til sín. Hann sagði oft að hann væri í fríi þegar hann væri í vinnunni. Kallinn hafði vit á því að reka mig að heiman þegar ég var 17 ára, af því ég neitaði að verða sprenglærður rykfallinn háskólafagidjót, og þá rofnaði samband okkar í nokkur ár. Það var ekki fyrr en hann var um sextugt sem ég fór að kynnast hans bestu hliðum. Hann var t.d. mjög meinhæðinn og stríðinn og hafði afar glöggt arnarauga fyrir öllu því neikvæða sem lífið hefur uppá að bjóða. Eins og hann var nú hjartahlýr og viðkvæmur þá hafði hann einstakt lag á að finna veiku blettina á fólki og stinga pínulítið í þá með meinfyndnum nastí athugasemdum. Eitt sinn vorum við í veislu og til okkar gekk virtur bókmenntagúrú sem minnti soldið á apa í framan. Pabbi tók í spaðann á honum og kynnti sig sem homo sapiens. Apinn gladdist ekki en það gerðum við feðgarnir að sjálfsögðu.

Kallinn var afar hugmyndaríkur, frumlegur, framsýnn, listrænn og frjór. Hann hafði mikinn áhuga á auglýsingasálfræði og ætlaði sér að opna fyrstu íslensku auglýsingastofuna um miðbik síðustu aldar en rakst á of marga veggi. Menn vissu ekkert um hvað hann var að tala svo hann gaf þetta upp á bátinn. Um svipað leyti fékk hann umboð fyrir BMW en rakst á of marga veggi. Gaf það frá sér. Leiddist veggir. Fyrir ca. tveimur áratugum varð hann sér úti um umboð fyrir stóru flettiskiltin sem nú eru út um alla borg. Hann talaði við allskonar steingelda blýantanaggrísi í kerfinu til að fá að koma þessu upp en rakst alls staðar á veggi. Gafst loks upp og sagði þessum flónum að hoppa uppí óæðri endann á sér, sem sé munninn. Stuttu síðar spruttu þessi flettiskilti upp út um allt, sem þýðir að „réttur“ maður hafi hirt þetta, sem er alllýsandi fyrir íslenskt viðskiptasiðferði. Það voru mistök hjá kallinum að velja sér Ísland sem búsetuland því hann var stálheiðarlegur sómamaður. Enda hætti hann í lögfræði og guðfræði eftir tveggja ára nám. Skellti sér þess í stað til útlanda og kláraði þar flugumsjónarnám og vann hjá Flugfélaginu í 50 ár. Hann umbar lítt drulludela og fávita og átti því skiljanlega mjög fáa íslenska vini. Honum þótti vænt um dýr og átti skynsama og viðræðugóða kisu. Og ekki síðri eiginkonu.

Ég kveð kallinn með elsku, trega og söknuð í hjarta. Hann var óneitanlega eftirminnilegur karakter.

Sverrir Stormsker.

Kveðja frá C-bekk í MR-1948

Vinur okkar og bekkjarbróðir, Ólafur Stefánsson, flugumsjónarmaður, lést eftir langvinn veikindi að morgni 21. mars 2013. Við kynntumst Óla veturinn 1941-42 í undirbúningsdeild Einars Magg, en hópurinn samanstóð af 13 til 14 ára gömlum heimspekingum sem voru að leggja út á lífsins ólgusjó. Vorprófin skáru úr um það hverjir skyldu fara í MR og hverjir í Ágústar-skólann. Vinir Óla fylgdu honum í Ágústarskólann sem var í gamla Iðnskólanum við Lækjargötu. Í Kvosinni voru lystisemdirnar alls staðar í kringum okkur. Við keyptum gosið í Freyju, milk shake á Langabar, við stunduðum bíó og skólaböll og fylgdumst grannt með Fröken Reykjavík sem gekk eftir Austurstræti á ótrúlega rauðum skóm og ilmaði eins og vorsins blóm. Þegar Ágústarskólinn fluttist seinna í gamla Stýrimannaskólann við Öldugötu, vorum við fluttir með sem hverjir aðrir innanstokksmunir.

Óli var góður drengur, glaðlyndur, vel máli farinn og skemmtilegur. Hann var mjög minnugur og var oft bráðfyndinn því húmorinn var í góðu lagi. Hann var mjög vinsæll meðal skólasystkinanna og eignaðist marga góða vini á þessum árum. Hann hafði ákveðnar skoðanir á hverju máli en var samt ófeiminn að taka til varna ef honum fannst að góður málstaður færi halloka.

Vorið 1944 var hluti bekkjarins fluttur upp í 3. bekk MR. Óli og vinir hans voru áfram í gamla skólanum þar til þeir voru sjálfir fluttir upp í 5. bekk Menntó tveim árum seinna. Í C-bekknum leið þeim vel, aðallega vegna þess að hópurinn, sem byrjaði saman 1942, var nú sameinaður að nýju og vinátta, sem myndaðist fyrir 4 árum, blómstraði á ný. Óli tók fullan þátt í félagslífinu. Hann hitti aftur gamla vini og eignaðist nýja. Hann fór í ferðir á vegum skólans og er frægust jarðfræðikennsluferðin á Heklu vorið 1947 þegar nemarnir gengu á nýstorknaðri hraunskáninni sem jafnharðan brotnaði undan fótum þeirra. Óli naut sín vel þennan tíma, bæði í námi og félagslífi, þar til hann, eins og hópurinn allur, lauk stúdentsprófi vorið 1948.

Eftir stúdentsprófið tvístraðist hópurinn. Flestir fóru í háskólanám, aðrir stofnuðu heimili og fóru að eignast börn, Óli fór í sérnám á vegum Flugmálastjórnar og vann síðan við flugumsjón á Reykjavíkurflugvelli og víðar í fjölda ára. Með náminu fór hann einnig hina hefðbundnu leið. Hann eignaðist góða konu, Vilhelmínu, sem hann og vinir þeirra hjóna kölluðu Góu, og eignuðust þau fjögur mannvænleg börn.

Í mörg undanfarin ár höfum við, C-bekkingarnir, hist mánaðarlega á Hótel Borg, hinum gamla og vinsæla samkomustað okkar. En tíminn líður hratt og áður en við áttum okkur er komið að 65 ára stúdentsafmælinu í júní nk.

Við kveðjum vin okkar Ólaf Stefánsson með þakklæti fyrir samfylgdina í rúmlega 70 ár, samfylgd sem aldrei bar skugga á. Og við flytjum Vilhelmínu, börnum þeirra og öðrum afkomendum innilegustu samúðarkveðjur okkar.

F.h. C-bekkjarins í MR 1948 og vinahópsins við hornborðið á Borginni,

Valgarð Runólfsson.