Risið á ríkisstjórnarflokkunum hefur aldrei verið lægra en við þinglok

Helsta markmið núverandi ríkisstjórnar síðustu mánuði og misseri hefur verið að skapa vinstri flokkunum þá stöðu að geta sagt að hér á landi hefði vinstri stjórn setið út kjörtímabil. Úr þessu eru líkur á að þetta takist, en dýru verði var staðhæfingin keypt.

Og aldrei hefur komið skýrar fram en á síðustu mínútum nýafstaðins þings hvers konar ríkisstjórn það er sem hefur einsett sér að sitja út kjörtímabilið. Í ljós kom að ríkisstjórnin hafði ekki þingmeirihluta til að koma neinu máli í gegn nema með aðstoð stjórnarandstöðunnar.

Henni tókst ekki að fá nema 25 þingmenn til að styðja eitt helsta mál sitt og jafnvel forsætisráðherra studdi málið ekki á lokasprettinum. Önnur mál fóru í gegn upp á náð og miskunn stjórnarandstöðunnar og umdeild mál fóru aðeins í gegn eftir að búið var að færa gildistöku þeirra yfir á næsta kjörtímabil svo að ákvörðun yrði í reynd í höndum annarra en núverandi ríkisstjórnar.

Stjórnarflokkunum tókst að vísu að sitja, en aldrei fyrr hefur ráðherrastólunum öllum verið raðað upp í skammarkrókinn í þinglok.