Þórir N. Kjartansson
Þórir N. Kjartansson
Eftir Þóri N. Kjartansson: "Og hvað á að selja Kínverjum á móti? Kannski íslenska ull svo þeir geti prjónað ódýrar „íslenskar lopapeysur“ til að selja erlendum ferðamönnum?"
Til hvers fríverslun við Kína? Til þess að leggja niður fleiri störf í framleiðslugreinum á Íslandi? Til þess að þeir sem stunda innflutning frá Kína hafi meiri möguleika á að auka álagningu sína? Ekki mun hagræðið skila sér allt til neytandans. Svo mikið þekki ég allt mitt heimafólk. Það hefur ekki þurft neina sérstaka snillinga í viðskiptum til að láta þrælana í Kína framleiða fyrir sig eitthvert dót og selja það svo kaupglöðum Íslendingum. Og hvað á að selja Kínverjum á móti? Kannski íslenska ull svo að þeir geti prjónað ódýrar „íslenskar“ lopapeysur til að endurselja erlendum ferðamönnum? Líklega hefur ekkert stjórnmálaafl eyðilagt jafn mörg störf í framleiðslugreinum á Íslandi eins og krataflokkarnir. Það er hreinlega eins og þeir telji það skyldu sína að gera íslenskum framleiðslufyrirtækjum erfitt fyrir en á móti að auðvelda og greiða fyrir öllu sem erlent er. Stóriðjan á kannski að verða eina framleiðslan sem má þrífast í landinu. Þar eru veittar ríflegar skattaívilnanir og raforkan afhent á gjafverði, þó ég sé ekki að kenna krötunum einum um það. Íslendingar sem eru að stofna framleiðslufyrirtæki fá ekki slíka fyrirgreiðslu. Menntakerfið er bólusett við því að mennta fólk í framleiðslu- og tæknigreinum. Það er engu líkara en að menn haldi að enn sé sannleikur í gamla brandaranum að „allir geti lifað á því að klippa hver annan“. Eða eins og einn Samfylkingarþingmaður sagði fyrir stuttu þegar atvinnuleysið var til umræðu. „Það verður opinberi geirinn sem mun bjarga málinu. Þar verða störfin til.“ Svo mörg voru þau orð.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri Víkurprjóns í Vík.

Höf.: Þóri N. Kjartansson