AMC Jeep CJ-7 árgerð 1978. Svona bílar sáust víða úti á þjóðvegunum fyrr á árum, enda góðir t.d. í öræfaslarki og ferðum utan alfaraleiða.
AMC Jeep CJ-7 árgerð 1978. Svona bílar sáust víða úti á þjóðvegunum fyrr á árum, enda góðir t.d. í öræfaslarki og ferðum utan alfaraleiða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við sækjumst eftir bílum með sögu, sérstaklega ef hún tengist Borgarfirði á einhvern hátt. Borgarnes hefur alltaf verið bílabær, því héðan liggja leiðir til allra átta.

Við sækjumst eftir bílum með sögu, sérstaklega ef hún tengist Borgarfirði á einhvern hátt. Borgarnes hefur alltaf verið bílabær, því héðan liggja leiðir til allra átta. Þessi staður varð fljótt miðpunktur samgangna,“ segir Sæmundur Sigmundsson, rútubílstjóri í Borgarnesi. Hann er meðal liðsmanna Fornbílafjelags Borgarfjarðar. Á þess vegum hefur verið komið upp áhugaverðu safni bíla í gærukjallara gamla sláturhússins í Brákarey í Borgarnesi. Safnið var opnað á síðasta ári og þar er að finna um þrjátíu gamla bíla af ýmsum gerðum, útgáfum og stærðum.

Einkabíll Vigdísar

Sú góða lykt sem oft fylgir bílum fyllir vitin þegar komið er inn í bílasafnið. Það gefur gestum strax ábendingu um að þeir séu á góðum og áhugaverðum stað. Og bílarnir blasa við. Nærri inngangnum er t.d. merkilegur gullmoli, það er Toyota Crown Royal Saloon, árgerð 1988. Bíll þessi var í eigu Vigdísar Finnbogadóttur á forsetaárum hennar, það er einkabíll hennar.

„Við fengum þennan bíl frá bónda vestur á Snæfellsnesi ekki alls fyrir löngu. Kaupverðið var ein króna, enda var þetta fyrst og fremst hugsað sem gjöf. En þessu fylgir auðvitað að við þurfum að bjóða Vigdísi í heimsókn,“ segir Sigurður Þorsteinsson, sem er einskonar safnstjóri.

Ford T 1927 er elsti bíllinn

Sigurður var lengi bílstjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga og hefur, ásamt fleiri mönnum, lagt mikla vinnu í uppbyggingu bílasafnsins. Úr þeim hópi má einnig nefna Örn Símonarson bifvélavirkja sem lengi var viðgerðamaður og bílstjóri í rútuútgerð Sæmundar Sigmundssonar. Raunar má nefna til marks um umsvifin í bílabænum Borgarnesi að þegar best lét var Sæmundur með 42 rútur í útgerð og Kaupfélag Borgfirðinga með 33 bíla. Allt er þetta veröld sem var.

Elsti bílinn í safninu er Ford T, árgerð 1927. Bíllinn var upphaflega í eigu Magnúsar Jónssonar, kennara í Hafnarfirði, en í tímans rás hafa eigendurnir annars verið nokkrir, þar á meðal Sæmundur Sigmundsson sem gerði bílinn upp í félagi við áðurnefndan Örn Símonarson. Fyrir nokkrum árum komst bíllinn í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu sem Kaupþing og síðar Arion banki tóku yfir. Forsvarsmenn bankans færðu Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri bílinn að gjöf, en hann er nú geymdur í bílasafninu, enda er þetta eðalbíll fremur en landbúnaðartæki.

Fyrsti tjaldvagn á Íslandi

Af öðrum bílum í safninu má nefna Ford A MB, 6 árgerð 1930, sem Sæmundur Sigmundsson á. Úr hans eigu er einnig Ford-rúta, árgerð 1947. Hún var lengi í eigu Jóns Húnfjörð á Hvammstanga, en Sæmundur eignaðist hana um 1980. Notaði hana raunar aldrei til fólksflutninga, heldur fyrst og síðast sem stássgrip. Jú, og svo hefur henni sést bregða fyrir í nokkrum íslenskum kvikmyndum, svo sem Punktur, puntur koma strik, Maríu eftir Einar Heimisson og Bíódögum eftir Friðrik Þór Friðriksson.

Sumir gripanna í safninu tengjast hersögunni. Einn bílanna þar er AMC Jeep CJ-7 árgerð 1978 í eigu Jóhannesar Ellertssonar og Margrétar Guðmundsdóttur. Það sem skapar hins vegar sérstöðuna er aftaníkerra jeppans, sem er með yfirbyggðu tjaldi. Kerran, sem er árgerð 1953, var upphaflega notuð í herstöð NATO í Frankfurt í Þýskalandi. Í hernaði er nauðsynlegt að hafa góðan búnað þegar haldið er út á mörkina í baráttuhug. Sama gildir í ferðalögum hér innanlands og því kom kerran þessi sér vel á ferðalögum fjölskyldu í Kópavogi.

„Við teljum að þetta sé fyrsti raunverulegi tjaldvagninn á Íslandi, enda er hann útbúinn með legubekkjum, hillum og húsmunum,“ segir Sigurður Þorsteinsson þegar þeir Benedikt Gunnar Lárusson sýna blaðamanni þennan stássgrip.

Í löngum röðum

Og svo koma bílarnir þarna í löngum röðum. Nefna má Jeep Willys, árgerð 1942, trukk af gerðinni Chevrolet C-15A, árgerð 1943, Opel Olympia Caravan, árgerð 1960, Land-Rover jeppa frá 1962 og 1965, Morris Minor, árgerð 1964, Range Rover, árgerð 1972, Lada Sport 2121 frá 1983. Einnig Ford AA, árgerð 1931. Bíll þessi, sem nú hefur verið sprautaður rauður, var lengi móbrúnn á lit og gekk meðal Borgnesinga undir nafninu Móri, en þetta var lengi snúningabíl í eigu Kaupfélags Borgfirðinga. Svona má halda áfram að nefna bílana, en sjá má myndin af þeim velflestum á síðu safnsins á Facebook.

Félagsheimili og ferðamannastaður

„Þessi starfsemi er mjög að eflast. Bæði er þetta einskonar félagsheimili okkar karlanna og ef vel tekst til gæti þetta líka orðið áhugaverður viðkomustaður ferðamanna,“ segir Sigurður Þorsteinsson. Í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar eru nú um 135 félagsmenn og fjölgar þeim jafnt og þétt. Sömuleiðis bílunum sem félaginu og safninu áskotnast.

„Það var talsverð vinna að koma kjallaranum í nothæft ástand. Hér þurfti að þrífa allt, rífa margt niður og setja annað upp. Safnið opnuðum við í júní í fyrra og höfum þegar sprengt utan af okkur húsnæðið. Bindum vonir við að fá meira húsrými hér á efri hæðinni – og vonandi gengur það í gegn,“ segir Sigurður Þorsteinsson.

sbs@mbl.is

facebook.com/

Fornbilafjelag Borgarfjarðar