Æft með mömmu Tristan Georg, yngri sonur Þórdísar, fær að koma með henni á æfingar á hverjum föstudegi.
Æft með mömmu Tristan Georg, yngri sonur Þórdísar, fær að koma með henni á æfingar á hverjum föstudegi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Capoeira er afró-brasilísk bardagalist með fimleikaívafi,“ segir Þórdís Björk Georgsdóttir þegar hún er beðin um að lýsa íþróttagrein sinni í stuttu máli.

„Capoeira er afró-brasilísk bardagalist með fimleikaívafi,“ segir Þórdís Björk Georgsdóttir þegar hún er beðin um að lýsa íþróttagrein sinni í stuttu máli. Þórdís leggur einnig stund á sjósund, Muay Thai, ketilbjöllur, Combat Flex og skellir sér reglulega á snjóbretti en segir Capoeira vera númer eitt og í raun ákveðinn lífsstíll sem hún tileinkar sér.

Signý Gunnarsdóttir

signy@mbl.is

Capoeira á uppruna sinn að rekja til Afríku þegar afrískir þrælar voru að skipuleggja uppreisn á 17. öld. Þeir máttu ekki berjast en vildu æfa bardagalist. Þeir dulbjuggu því æfingarnar sem dans og notuðust við tónlist á meðan. Þar sem þetta var ólöglegt fengu allir sem stunduðu capoeira dulnefni og hefur sú hefð haldist til dagsins í dag líkt og flestar aðrar hefðir greinarinnar. Capoeira þróaðist seinna í Brasilíu fyrir tilstuðlan afkomenda afrísku þrælanna. Hópur íslenskra capoeira-aðdáenda kemur nú saman reglulega í Crossfit Kraftur á Suðurlandsbraut til að æfa þessa gömlu íþrótt. Meðal virkra iðkenda er Þórdís Björk Georgsdóttir. „Capoeira er spilað í nokkru sem heitir rota. Þá fara allir í hring og svo á einum staðnum í hringnum er tónlistin. Þá eru spiluð capoeira-lög á capoeira-hljóðfæri. Sá sem er með berimbau, capoeira-hljóðfærið, stjórnar rotanu. Svo koma alltaf tveir og tveir og spila inni í hringnum. Capoeira er svo mikið meira en bardagaíþrótt. Þetta snýst mikið um orku, að gefa af sér, hjálpa öðrum og læra af öðrum. Við erum ekki að berjast, þetta er meira samspil,“ segir Þórdís sem hefur æft capoeira nú í tvö ár.

Fór til Barcelona og fékk fyrsta beltið

Þórdís heyrði fyrst af capoeira þegar hún var á fimleikaæfingu og langaði strax til að prófa. Þá voru aðeins tveir strákar á æfingum sem voru að fikra sig áfram í þessari framandi bardagalist sem snýst ekki mikið um bardaga. „Capoeira nær yfir svo margt. Á æfingum gerum við styrktar-, liðleika- og úthaldsæfingar. Við æfum capoeira-hreyfingarnar og lærum tónlistina og svo er saga íþróttarinnar líka rosalega stór partur af þessu þar sem er haldið í upprunann. Þetta er svo mikið meira en bara íþrótt. Þegar maður er kominn inn í þetta verður þetta lífsstíll. Þetta verður eins og heimspeki, maður sér capoeira úti um allt. Við erum um 15 sem æfum reglubundið og erum með brasilískan kennara, Angelo, sem er contramestre. Hann stofnaði hópa undir nafninu Matumbé í Barcelona, Róm, hér og á Jamaika. Hann hefur komið hingað þrisvar. Í dag kennir Magdalena Novak tímana hérna á Íslandi undir leiðsögn Angelos. Síðasta júlí fór ég til Barcelona að æfa hjá honum og ég tók fyrsta beltið mitt þar.“

Fékk nafnið Geireira sem merkir stríðskona

Þórdís segir að ekki væri hægt að æfa capoeira á Íslandi ef ekki væri fyrir Viðar Kristinsson og Bjarneyju Hinriksdóttur. Viðar bjó í Brasilíu um tíma og kom með íþróttina til landsins þegar hann fluttist heim. Bjarney komst síðan í kynni við Angelo contramestre í Barcelona og tengdi hann og íslenska hópinn saman. „Meistari minn varð contramestre síðasta haust og hann er búinn að æfa frá 12 ára aldri og er núna um þrítugt og hann er ekki enn kominn á hæsta stig. Þannig að það tekur langan tíma að vera fullnuma í capoeira ef það er nokkurn tímann hægt,“ segir Þórdís.

Þegar Þórdís fékk fyrsta beltið sitt, batizado, síðastliðið sumar fékk hún líka capoeira-nafnið sitt. „Ég fékk nafnið Geireira og það þýðir stríðskona. Kennarinn minn gaf mér það. Ég er með rakaðan hluta af hárinu á mér og er búin að vera mikið í styrktaríþróttum þannig að ég er kannski smá stælt.

Kennarinn úthlutar nafni og það er yfirleitt eitthvað sem tengist viðkomandi, hvort sem það er orka sem einstaklingurinn gefur frá sér eða útlitseinkenni,“ segir Þórdís sem er ánægð með capoeira-nafn sitt.

Æfir fimm íþróttagreinar reglubundið

Þórdís hefur alltaf verið virk í íþróttum og kynntist fyrst bardagaíþróttum þegar hún æfði box aðeins fimmtán ára gömul. Fyrir utan capoeira æfir hún í dag Muay Thai, taílenska baradagaíþrótt, Combat Flex, fer tvisvar í viku í sjósund og eins oft og hún getur á snjóbretti með níu ára gömlum syni sínum. „Það er fínt að blanda þessu saman en capoeira er alltaf númer eitt hjá mér. Muay Thai er bardagi, ólíkt capoeira, og þá er maður að boxa og notar hnefa, olnboga, hné og spörk. Ég er með boxpúða úti í bílskúr og æfi svolítið þar. Í Combat Flex gerum við styrktarteygjur sem eru sérstaklega fyrir bardagaíþróttafólk. Ég er með c-class réttindi í því og ketilbjöllum og hef verið að kenna hóptíma í báðum greinum.“

Þórdís á tvo drengi, þá Erik Nóa 9 ára og Tristan Georg 4 ára, og segir hún þá taka virkan þátt í áhugamálum hennar. „Þegar maður er í svona mörgu finnst mér alveg nauðsynlegt að geta gert eitthvað af þessu með börnunum mínum. Litli minn er capoeira-sjúkur. Hann er orðinn mjög góður og kemur alltaf með mér á æfingar á föstudögum og spilar með mér. Sá eldri fer með mér á snjóbretti og kemur með mér í sjósund. Hann syndir ekki en fer alveg upp að brjóstkassa og finnst það algjört æði.“

Þórdís kynntist kærasta sínum, Peter Farkas, í capoeira og segir hann alveg jafn virkan og hún er. „Hann er búinn að draga mig í salsa og ég er búin að draga hann í sjósund,“ segir Þórdís og hlær. Capoeira er orðinn lífsstíll hjá Þórdísi og fjölskyldu hennar og segir hún að líf hennar hafi breyst mikið eftir að hún byrjaði æfingar. „Ég sé capoeira alls staðar. Þetta er orðinn hluti af mér. Capoeira er líka fyrir alla og snýst um að bjóða alla velkomna. Ég hvet því alla áhugasama til að koma og kynna sér íþróttina. Við erum með síðu á Facebook sem heitir Capoeira á Íslandi. Þar er hægt að sækja um aðgang og sjá það sem við erum að gera og fá upplýsingar um æfingatíma. Í framtíðinni myndi ég síðan vilja fara í þrjá mánuði til Brasilíu til að æfa og taka strákana með mér. Það væri æðislegt.“