Úti að borða Örn Guðmarsson, forstjóri Málmtækni, og eiginkona hans, Jóhanna Vilhjálmsdóttir.
Úti að borða Örn Guðmarsson, forstjóri Málmtækni, og eiginkona hans, Jóhanna Vilhjálmsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örn fæddist í Reykjavík 2.4. 1943 og ólst þar upp á Njálsgötunni.

Örn fæddist í Reykjavík 2.4. 1943 og ólst þar upp á Njálsgötunni. Hann var í Austurbæjarskólanum, Iðnskólanum í Reykjavík og á samningi hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar, lauk sveinsprófi í vélvirkjun og varð síðan vélvirkjameistari, stundaði nám við undirbúningsdeild Tækniskólans og framhaldsnám við tækniskóla í Ósló.

Örn var verkstjóri hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar. Hann stofnaði, ásamt Ásgeiri Höskuldssyni, fyrirtækið Málmtækni, en keypti síðar hlut Ásgeirs í fyrirtækinu og hefur starfrækt það síðan.

Mannauður okkar er auðlind

Málmtækni sá upphaflega um margvíslega verkþætti, einkum við boranir og aðrar virkjunarframkvæmdir, víða um land.

Í seinni tíð hefur fyrirtækið sérhæft sig í innflutningi á hágæða, ryðfríu stáli, áli og plasti. Það hefur þar með orðið mikilvægur þjónustuaðili fyrir ýmsa þá aðila sem unnið hafa að nýsköpun og tækniþróun á sviði fiskvinnslutækja, víða um land, sem og á sviði rannsóknartækja af ýmsu tagi.

„Við höfum átt ánægjuleg samskipti við uppfinningamenn og aðra frumkvöðla á ýmsum sviðum. Samskipti við slíka aðila hafa sannfært mig um það hversu miklum mannauði við búum yfir sem þjóð – mikilli menntun, hugviti, frumleika og krafti hjá ungu og hugmyndaríku fólki. Þetta er auðlind sem verður að fá að dafna við rétt skilyrði. Þá á hún eftir að borga sig margfalt,“ segir Örn um unga fólkið og nýsköpun.

„Fyrirtækið hjá okkur hefur vaxið hægt en örugglega, allt frá stofnun. Við flytjum nú inn um 2.000 tonn af hágæðaefni sem aftur er flutt út sem t.d. fullunnar fiskvinnsluvélar. Hjá okkur starfa nú 14 manns.“

Örn starfaði í Rotaryhreyfingunni um skeið og söng með Karlakór Reykjavíkur.

„Ég hef alla tíð haft gaman af söng. Faðir minn söng með Karlakór Reykjavíkur en ég þurfti að taka fyrirtækið fram yfir kórinn. Þess vegna hætti ég. Hins vegar hef ég gaman af að taka í píanóið og orgelið þegar tími vinnst til en það er nú bara fyrir sjálfan mig.

Auk þess hefur öll fjölskyldan verið heilluð af öræfunum íslensku. Við höfum farið í fjölda ferða um óbyggðirnar um árabil og erum öll heilluð af fegurð þeirra, friði og víðáttu. Þar er nú önnur auðlind sem við verðum að fara vel með.“

Fjölskylda

Eiginkona Arnar er Jóhanna Vilhjálmsdóttir, f. 22.11. 1944, húsfreyja og skrifstofumaður. Hún er dóttir Vilhjálms Guðmundssonar, forstjóra og kaupmanns, og Ásgerðar Pétursdóttur húsfreyju en þau eru bæði látin.

Börn Arnar eru Sigrún Arnardóttir, f. 22.8. 1961, starfsmaður hjá skattinum í Kristjansund í Noregi og á hún þrjú börn; Hólmfríður Arnardóttir, f. 25.8. 1964, heimspekingur og starfsmaður hjá Fuglaverndunarfélagi Íslands, en maður hennar er Þórhallur Barði Kárason og eiga þau tvo syni; Bjartmar Örn Arnarson, f. 17.5. 1969, flugstjóri, búsettur í Reykjavík en kona hans er Agnes Sigmundsdóttir og eiga þau þrjá syni; Höskuldur Örn Arnarson, f. 4.3. 1980, sjávarútvegsfræðingur og sölustjóri hjá Málmtækni, en kona hans er Hjördís Guðmundsdóttir og eiga þau þrjú börn; Gunnar Ingi Arnarson, f. 13.12. 1981, fjármálastjóri hjá Málmtækni, en kona hans er Hildigunnur Magnúsdóttir og eiga þau tvo syni.

Stjúpdóttir Arnar er Hrönn Harðardóttir, f. 28.1. 1965, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri við LSH, en maður hennar er Magnús Guðmundsson og eiga þau tvær dætur.

Alsystkini Arnar eru Finnbogi, f. 21.4. 1939, fyrrv. starfsmaður hjá Málmtækni; Erna, f. 2.8. 1940, myndlistarkona í Reykjavík.

Hálfsystur Arnar eru Ester Guðmarsdóttir, f. 2.9. 1917, húsfr. í Reykjavík, og Elín Ágústsdóttir, f. 22.3. 1953, búsett á Kanaríeyjum.

Foreldrar Arnar voru Guðmar Ingiber Guðmundsson, f. 4.8. 1908, d. 26.3. 1993, bílstjóri í Reykjavík, og Anna Finnbogadóttir, f. 11.7. 1911, d. 14.11. 2006, kjólameistari.