Háfað „Það er gamla góða Mickey Finn-flugan,“ sagði Jakob H. Magnússon lukkulegur þegar Árni Magnússon, félagi hans, kom og háfaði fyrir hann myndarlegan sjóbirting við ónefndan stað í Tungulæk í gær. Jabob er veitingamaður á Horninu og veiðistaðnum var umsvifalaust gefið heiti: Hornið.
Háfað „Það er gamla góða Mickey Finn-flugan,“ sagði Jakob H. Magnússon lukkulegur þegar Árni Magnússon, félagi hans, kom og háfaði fyrir hann myndarlegan sjóbirting við ónefndan stað í Tungulæk í gær. Jabob er veitingamaður á Horninu og veiðistaðnum var umsvifalaust gefið heiti: Hornið. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Þetta er eins og í ævintýrunum,“ sagði Jakob H. Magnússon veitingamaður og brosti breitt þar sem hann hafði landað enn einum sjóbirtingnum í í Tungulæk í Landbroti í gær.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Þetta er eins og í ævintýrunum,“ sagði Jakob H. Magnússon veitingamaður og brosti breitt þar sem hann hafði landað enn einum sjóbirtingnum í í Tungulæk í Landbroti í gær. „Það er fiskur alls staðar,“ bætti hann við, „og margir stórir.“

„Svona er Tungulækur!“ sagði Þórarinn Kristinsson, eigandi lækjarins, sem kom þar að.

„Maður hefur ekki tíma til að fara upp í hús í hádegismat,“ sagði Jakob kvartandi, en ekki virtist vera mikil alvara í því.

Hvað voru þeir komnir með marga? „Ég er með 26,“ sagði Þórarinn, og hann fékk tvo býsna stóra úti í skilum Skaftár, fiska yfir 80 cm að lengd. „Ég er með 22,“ sagði Jakob, og þriðji félaginn, sem kom þar að og var nýbúinn að landa, Árni Magnússon, sagðist vera kominn með 16. Hann byrjaði aðeins seinna að veiða en hinir á þessum fyrsta degi veiðitímabilsins.

„Þetta eru 64, við þurfum einn enn áður en við förum í mat,“ sagði Þórarinn og Jakob tók hann á orðinu, gekk fram á ómerkt nef við ána fyrir framan okkur og kastaði.

„Hvers vegna tók enginn í þessu kasti,“ sögðu þeir hlæjandi þegar flugan kom upp að bakkanum án þess að birtingur hrifsaði í hana. Það þurfti þó bara tvö köst til og þá var hann á. „Það er gamla góða Mickey Finn-flugan,“ sagði Jakob sigri hrósandi og eftir þónokkur tog hafði Árni háfað rífega 60 cm langa hrygnu og félagarnir gátu haldið heim í hús í hádegismat.

Byrjunin á veiðitímabilinu var því æði lífleg í Tungulæk í gær, og ánægðir veiðimenn voru víðar á ferðinni. Handan Skaftár, í Vatnamótunum, fór takan reyndar seint af stað, að sögn Ragnars Johansen í Hörgslandi en seinnipartinn náðust þó tuttugu birtingar á land á stangirnar þrjár. Í Geirlandsá þar skammt frá var einhver besta opnun í manna minnum, 35 fiskar veiddust og þeir fengust víða um ána. Í Tungufljóti í Skaftártungum veiddust 22 á fyrri vaktinni einni, allir við Syðri-Hólma.

Þegar athugað var með lokatölur í Tungulæk hjá Þórarni í gærkvöldi þá stóð ekki á svari.

„Við lönduðum 110 fiskum. Hann safnaðist saman í Holunni seinnipartinn og var á í hverju einasta kasti,“ sagði hann og bætti við að sá stærsti hefði verið fjórtán punda. Ekkert aprílgabb þar. 15

GÓÐ BYRJUN Í LITLUÁ

92 landað og áin „pökkuð“

„Það gekk býsna vel hér í dag, miðað við að það er frekar kalt og vetur á þessu; veiðimennirnir fengu 92 í dag á fimm stangir,“ sagði Sturla Sigtryggsson, bóndi í Keldunesi í Kelduhverfi, um opnunina í Litluá. Áin nýtur þess að vera óvenjuhlý en hinsvegar hafði Sturla eftir veiðimönnunum að vatnið hefði verið tært og stillt og fiskarnir auðstyggðir. „Þeir sögðu að miðað við fiskmagn væri þetta engin veiði, því áin væri alveg pökkuð af fiski.“ Jafn mikið veiddist af bleikju og birtingi.