Átök Heræfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreu standa yfir.
Átök Heræfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreu standa yfir. — AFP
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Park Geun Hye, forseti Suður-Kóreu, sagðist í gær taka herskáar hótanir stjórnvalda í Norður-Kóreu afar alvarlega og hét tafarlausum hernaðaraðgerðum ef þjóðinni væri ógnað.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Park Geun Hye, forseti Suður-Kóreu, sagðist í gær taka herskáar hótanir stjórnvalda í Norður-Kóreu afar alvarlega og hét tafarlausum hernaðaraðgerðum ef þjóðinni væri ógnað. Varnarmálaráðherra landsins, Kim Kwan-Jin, sagði að kæmi til átaka myndu stjórnvöld í Suður-Kóreu gera fyrirbyggjandi árásir á hernaðarskotmörk í Norður-Kóreu.

Talsmaður Hvíta hússins, Jay Carney, sagði í gær að þrátt fyrir ítrekaðar hótanir stjórnvalda í Norður-Kóreu benti ekkert til þess að þau hefðu látið athafnir fylgja orðum. Þá sögðu bandarísk hernaðaryfirvöld í gær að þau hefðu sent F-22 Raptor herflugvélar til Suður-Kóreu en það væri liður í hinni árlegu „Foal Eagle“ heræfingu.

„F-22 vélarnar eru háþróaðar orustuflugvélar og þær eru mikilvægur vitnisburður um skuldbindingu okkar við Suður-Kóreu,“ sagði George Little, talsmaður Pentagon. Hann sagði stjórnvöld í Pyongyang hafa val milli þess að halda storkandi og ábyrgðarlausu orðagjálfri sínu áfram eða feta leiðina til friðar.

Þing Norður-Kóreu afgreiddi í gær reglugerð þar sem staða ríkisins sem „kjarnorkuvopnaríkis í þágu sjálfsvarnar“ var fest í sessi. Þá var Pak Pong-Ju, 74 ára fyrrverandi forsætisráðherra landsins, skipaður aftur í það embætti en hann var látinn víkja árið 2007 eftir að hafa gert lítillegar umbætur á fyrirtækjum í ríkiseigu.

Staða mála á Kóreuskaganum verður rædd á fundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Suður- Kóreu í dag.