Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti þjóðinni fallegan páskaboðskap í Morgunblaðinu á skírdag. Inntak greinar hans var samhljóða boðskap kristinnar trúar, það er að í krafti kærleikans sé alltaf von.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti þjóðinni fallegan páskaboðskap í Morgunblaðinu á skírdag. Inntak greinar hans var samhljóða boðskap kristinnar trúar, það er að í krafti kærleikans sé alltaf von. Ráðherrann sagði frá því að um kvöld hefði kona hringt dyrabjöllunni á heimili hans. Leitaði ásjár, maður hennar hefði verið tekinn fyrir of hraðan akstur í Suður-Evrópu og var stungið í dýflissu. Peningalaus var hann fastur í prísund og losnaði ekki fyrr en ráðherrann hafði ræst út sitt fólk sem og ræðismann í fjarlægu landi. Á fáeinum klukkutímum var hægt að leysa manninn út og létta sálarangist ástvina.

Sumarið 2010 henti að maður féll í faðm fjalladrottningarinnar, Herðubreiðar, og varð bráðkvaddur. Ekki var annað að gera en koma hinum látna af fjallinu þótt erfitt yrði. Var því leitað var til Landhelgisgæslunnar um að senda þyrlu norður. Gæslumenn gáfu afsvar og brá formaður björgunarsveitar því á það ráð að hringja á sunnudegi í dómsmálaráðherrann, Rögnu Árnadóttur og óskaði liðsinnis. Litlum sögum fór af viðbrögðum ráðherrans en stjórnendur Gæslunnar og slysavarnafélagsins urðu saltvondir. Vegna þessa atviks varð talsvert fjaðrafok og umfjöllun í fjölmiðlum, en inntak hennar var að björgunarsveitarmenn mættu ekki bögga ráðherra. Jú, víst fór Þingeyingurinn út fyrir ramma ritúalsins, en að setja sig beint í samband við ráðherrann var yndislega fallegt og séríslenskt.

Eftir hrun hafa margir nefnt að stjórnsýsla þurfi að vera faglegri, fjarlægð milli fólks og valds meiri og ákvarðanir teknar af sérfræðingum. Þau sjónarmið eru gild en ekki það sem Íslendingar vilja. Sakir fámennis, nándar, tengsla og annars er okkur tamt að geta átt milliliðalaus samskipti við þá sem stjórna málum, fá skjót svör og úrlausn. Sumir segja þetta klíkuskap, aðrir tala um tengslanet.

Fyrir nokkrum árum sagði þáverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, frá því í viðtali að fólk bæði sig um að kippa í spotta hér og þar, jafnvel á öðrum tilverustigum. Vissulega er einum of að gera slíkar kröfur eða að vænta að úr öllu sé bætt. En ef okkur finnst að úr einhverju megi bæta eða annað sé þakkarvert má alltaf setja sig í samband við ráðamenn t.d. með tölvupósti. Og séu mál vel reifuð og kurteislega sett fram má vænta svars. Munum að það eru forréttindi í þjóðfélagi þar sem við getum átt milliliðalaus samskipti við þá sem umboð fjöldans hafa. Stjórnendur flugfélaga segja mér að á förnum vegi fái þeir yfirhalningu vegna týndra ferðataska og aðrir jafnsettir í ábyrgðarstöðum fá sjálfsagt svipaðar ræður; forstjórar, embættismenn, borgarfulltrúar, þingmenn, ráðherrar og jafnvel forsetinn. Og þetta er beggja hagur. Höfundur þessarar greinar þekkir t.d. vel að taka við lofi og lasti vegna Morgunblaðsins, en þær athugasemdir koma ósjaldan þegar ég stend í „viðeigandi klæðnaði“ undir sturtunni í sundlauginni. sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson