Gunnlaugur Sigurjónsson
Gunnlaugur Sigurjónsson
Eftir Gunnlaug Sigurjónsson: "Tugþúsundir koma árlega á bráðamóttökur Landspítala sem ættu frekar að leita til heilsugæslunnar."

Fólk er yfirleitt spurt um heimilislækninn sinn þegar það á í samskiptum við heilbrigðiskerfið. Gert er ráð fyrir að allir geti svarað því, en tugþúsundir Íslendinga eru án heimilislæknis. Þetta ástand þarf að laga sem fyrst því það dregur úr afköstum heilsugæslunnar og eykur álag á bráðamóttökur sjúkrahúsanna.

Fyrir flesta skiptir máli að hafa heimilislækni, bæði þegar veikindi gera vart við sig en einnig varðandi forvarnir og eftirlit. Þegar margir eru án heimilislæknis verður heilbrigðiskerfið ómarkvissara og um leið dýrara. Fólk án heimilislæknis er oft skráð á heilsugæslustöð án þess að hafa ákveðinn heimilislækni. Það kostar tíma og fyrirhöfn fyrir starfsfólk að setja sig stöðugt inn í vandamál og heilsufar fólks sem það þekkir ekki. Það kallar á fleiri rannsóknir og afleiddan kostnað.

Það eiga að vera réttindi allra Íslendinga að geta átt sinn heimilislækni. Mönnun og framboð á sérfræðingum í heimilislækningum býður því miður ekki upp á að allir geti eignast sinn eigin lækni. Ríkjandi skortur á heimilislæknum veldur álagi og truflar gangverk alls heilbrigðiskerfisins.

Fjárframlög til heilsugæslunnar voru aukin fyrir kreppu og það hefur skilað sér í að ungbarnaeftirlit og mæðraeftirlit er almennt í góðum farvegi. Heilsugæslulækningarnar hafa hins vegar setið á hakanum. Því er uppsöfnuð þörf fyrir tugi nýrra sérfræðinga í heimilislækningum.

Talsvert hefur áunnist við að fjölga námsstöðum í heimilislækningum hér á landi allra síðustu ár. En betur má ef duga skal. Ef manna á heilsugæsluna á næstu 10 árum þannig að allir geti átt sin heimilislækni, þarf 14 nýja heimilislækna á ári, en fjórir hafa útskrifast á ári síðustu ár. Ástandið er því alvarlegt. Nokkuð hefur verið um að sérfræðingar í heimilislækningum hafi hætt störfum vegna óánægju með starfsumhverfið.

Félag íslenskra heimilislækna hefur lengi talað fyrir mikilvægi þess að bjóða upp á mismunandi rekstrarform í heilsugæslunni og laða þannig lækna til starfa innan hennar. Heilsugæslan er víða talin og viðurkennd sem grunnur heilbrigðiskerfisins. Svo hefur einnig verið hér í orði en síður á borði. Mikið hefur verið rætt um nýtt sem þó mun ekki leysa vandamál heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Hlúa þarf að grunni heilbrigðiskerfisins og styrkja hann svo sjúkrahúsþjónustan geti blómstrað og sinnt því sem henni ber að sinna í stað þess að drukkna í verkefnum heilsugæslunnar.

Tölur hafa sýnt að tugþúsundir koma árlega á bráðamóttökur Landspítala, sem ættu frekar að leita til heilsugæslunnar. Þegar hægt verður að snúa niðurskurði síðustu ára við er því nauðsynlegt að auka fjármagn í grunnþjónustuna, sem þá getur létt álagið á bráðamóttökur Landspítala. Til að hægt sé að gera það þarf fyrst og fremst að fjölga heimilislæknum.

Í drögum að nýrri heilbrigðisáætlun kemur fram að stefna eigi að því að allir eigi sinn heimilislækni. Vonandi munu gerðir fylgja orðum þannig að innan fárra ára geti allir nefnt sinn lækni þegar spurt verður hver er heimilislæknirinn þinn?

Höfundur er heimilislæknir og stjórnarmaður í Félagi íslenskra heimilislækna.

Höf.: Gunnlaug Sigurjónsson