Vinstri menn hafa gætt þess vel að nefna ekki skatta í kosningabaráttunni

Stjórnarflokkarnir, sem í upphafi kjörtímabils voru tveir eru nú í raun þrír, hafa boðið þjóðinni upp á margvíslega erfiðleika og dregið úr lífskjörum almennings svo annað eins hefur ekki áður sést.

Eitt hið þungbærasta eru skattahækkanir sem staðið hafa allt kjörtímabilið og munu nú vera orðnar á annað hundrað, en flestir hafa að vísu fyrir löngu gefist upp á að telja og taka varla eftir því lengur þó að skattar séu hækkaðir. Skattahækkanirnar hafa haft lamandi áhrif á atvinnulífið og dregið þannig úr hagvexti, sem hefur verið langt undir því sem vænta mátti á kjörtímabilinu, ekki síst síðari hluta þess þegar uppgangur hefði átt að vera kröftugur.

Skattahækkanirnar hafa einnig haft lamandi áhrif á heimilin með ýmsum hætti. Hækkandi skattar á atvinnulífið hafa takmarkað möguleika fólks á vinnumarkaði og þannig komið mjög við pyngju almennings þó að erfitt sé að mæla hversu mikil áhrifin hafa verið.

Hækkandi skattar á tekjur almennings hafa bein áhrif á pyngjuna og hafa gert fólki erfiðara fyrir að standa við skuldbindingar sínar og sinna daglegum rekstri heimilisins.

Hækkandi skattar og gjöld á neysluvörur hafa haft einnig haft áhrif á ráðstöfunartekjur almennings með því að hækka verð á nauðsynjavörum og gera fólki erfiðara að láta enda ná saman.

Þeir skattar hafa einnig haft áhrif á skuldir almennings og greiðslubyrði lána, sem er umhugsunarvert þegar sömu flokkar og standa fyrir þessum hækkunum lýsa fyrir kosningar áhyggjum af verðtryggingunni og þykjast geta boðið upp á töfralausnir í lánamálum.

Í ljósi allra þeirra skattahækkana sem dunið hafa á landsmönnum á kjörtímabilinu mætti ætla að helstu baráttumál flokka og framboða væru að létta þessar byrðar af almenningi og bjóða fólki upp á von um vaxandi hagsæld og auknar ráðstöfunartekjur. Þó heyrist furðu lítið á þetta minnst.

Ef til vill er skiljanlegt að stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og systurflokkur hennar auk Vinstri grænna, bjóði ekki upp á skattalækkanir því það voru jú þessir flokkar sem hækkuðu álögurnar. Samfylkingin minnist varla á skatta í kosningastefnu sinni, ekki frekar en snara er nefnd í hengds manns húsi. Systurflokkurinn Björt framtíð er á sama róli og Samfylkingin í skattamálum sem öðrum og Vinstri grænir halda einnig fast við háskattastefnuna.

Einungis tveir flokkanna, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, boða lækkun skatta og annar þeirra af töluvert meiri varfærni en hinn. Í raun er það aðeins Sjálfstæðisflokkurinn sem leggur verulega áherslu á lækkun skatta og talar um að vinda ofan af skattabreytingum vinstri stjórnarinnar.

Ef til vill á þetta eftir að breytast nú þegar kosningabaráttan kemst á flug. Þetta stóra mál, að vinda ofan af skattahækkunum vinstri manna, verður að vera eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar ef koma á atvinnulífinu og hagkerfinu í samt lag.