Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona, lést á páskadag, 89 ára að aldri. Hún var fædd 15. október 1923 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Tómas Bjarnason og María Víðis Jónsdóttir og hún var ein sex systkina.

Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona, lést á páskadag, 89 ára að aldri. Hún var fædd 15. október 1923 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Tómas Bjarnason og María Víðis Jónsdóttir og hún var ein sex systkina.

Herdís stóð fyrst á leiksviði í Gúttó í Hafnarfirði, níu ára gömul og sautján ára lék hún í fyrsta sinn með Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó.

Herdís nam leiklist hjá Lárusi Pálssyni og Haraldi Björnssyni og árið 1945 fór hún til London og nam við The Royal Academy of Dramatic Art (RADA). Hún lék Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni við opnun Þjóðleikhússins árið 1950. Þar starfaði hún allt til dauðadags og fór með mörg stór hlutverk á löngum ferli.

Herdís giftist Gunnlaugi Þórðarsyni hæstaréttarlögmanni sem lést 20. maí 1998. Börn þeirra eru Hrafn kvikmyndagerðarmaður, Þorvaldur stærðfræðingur, Snædís lögfræðingur og Tinna leikari og þjóðleikhússtjóri. Barnabörn Herdísar og Gunnlaugs eru sautján og barnabarnabörnin sextán.

Herdís lék áfram eftir að hún fór á eftirlaun, m.a. móður Jóns Hreggviðssonar í síðustu uppfærslu á Íslandsklukkunni á 60 ára afmæli Þjóðleikhússins. Viku fyrir andlát sitt, þann 23. mars sl. stóð Herdís á leiksviði í verkinu Karma fyrir fugla, sem sýnt er í Kassa leikhússins. Þá starfaði Herdís fyrir útvarp og sjónvarp og lék í ýmsum kvikmyndum.

Herdís hlaut ýmis verðlaun og viðurkenningar á ferli sínum, svo sem riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1969, heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2007 og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2010. Hún var náttúruunnandi og barðist fyrir gróðurvernd á Íslandi. Hún stofnaði og var formaður náttúruverndarsamtakanna Líf og land og tók þátt í starfi áhugafélaga um uppgræðslu landsins. Hennar helsta baráttumál var þó stöðvun lausagöngu búfénaðar. Um það málefni ritaði hún blaðagreinar og kostaði og framleiddi heimildarmyndina Fjallkonan hrópar á vægð, sem sýnd var í RÚV á sl. ári.