B-Max er nokkuð rennilegur fyrir fjölnotabíl og ekki skemma stórar álfelgur fyrir, heldur þvert á móti gera þær bílinn svipsterkari á götum úti.
B-Max er nokkuð rennilegur fyrir fjölnotabíl og ekki skemma stórar álfelgur fyrir, heldur þvert á móti gera þær bílinn svipsterkari á götum úti. — Ljósm/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýjasta viðbótin við fjölbreytilega flóru Ford bíla er Ford B-Max fjölnotabíllinn. Bíllinn kom fyrst fyrir almenningssjónir á bílasýningunni í Genf fyrir réttu ári en hafði reyndar sést sem tilraunabíll á sömu sýningu árið 2011.

Nýjasta viðbótin við fjölbreytilega flóru Ford bíla er Ford B-Max fjölnotabíllinn. Bíllinn kom fyrst fyrir almenningssjónir á bílasýningunni í Genf fyrir réttu ári en hafði reyndar sést sem tilraunabíll á sömu sýningu árið 2011. Bíllinn er loksins kominn hingað til lands og fyrir skömmu gafst bílablaðamanni Morgunblaðsins tækifæri að prófa gripinn, en hann myndi líklega flokkast undir þann markhóp sem þessi bíll er ætlaður. B-Max er nefnilega fimm manna fjölnotabíll en undirritaður tilheyrir einmitt fimm manna fjölskyldu með börn á aldrinum 2-10 ára.

B-Max án B-bita

Það sem gerir þennan bíl aðeins öðruvísi en aðra svipaða bíla á markaði er sú einfalda staðreynd að B-Max er án B-bita sem er burðarbitinn milli fram- og afturhurða. Að búa til bíl án B-bita er ekki eins auðvelt og ætla mætti á tímum fimm stjörnu árekstrarprófa en hann stenst próf EuroNCAP með prýði með fullt hús stiga. Styrknum sem hann þarf á að halda er náð með meiri styrkingu í gólfbitum, meiri styrk í A-bita og ekki síst hurðunum sjálfum. Fremri hurðin er hefðbundin og sú aftari rennihurð þannig að þegar báðar eru opnaðar er mikið opið pláss sem auðveldar allt aðgengi í báðar sætaraðir. Hönnuðir Ford fóru þó ekki þá leið að taka burtu B-bitann í gluggunum því að þar er hann til staðar ennþá til að viðhalda styrknum upp í þakið og gera einfalda hluti eins og að renna niður rúðum mögulega.

Gott aðgengi í aftursæti

Hvernig skyldi nú þessi galdrabíll reynast fyrir vísitölufjölskylduna? Það segir sig nánast sjálft að þessi mikla opnun er mikill kostur þegar kemur að því að koma vel sprækum tveggja ára strák fyrir í barnabílstól í aftursæti. Bíllinn er hár til loftsins og þar sem bitinn milli hurðanna flækist nú ekki lengur fyrir er þetta aðgengi hreinasti draumur. Ford lagði líka mikið upp úr því að nota efni sem þyldu vel ágang barna og prófuðu þau sérstaklega í því tilliti. Því kann efnisvalið að þykja örlítið hrátt en það er líka góð ástæða fyrir því. En börnin mín voru samt ekki alls kostar ánægð með suma hluti og voru stundum óvægin í dómum sínum. Þau kvörtuðu til dæmis undan þungum hurðum sem var laukrétt hjá þeim, meiri styrkur felur í sér meiri þyngd, það segir sig sjálft. Þótti þeim ekki auðvelt að opna eða loka dyrunum sjálf en tekið skal fram að þau eru reyndar orðin gjörspillt af rafmagnshurðum í stórum strumpastrætó fjölskyldunnar.

Breiður A-biti

Það er nefnilega dálítið merkilegt að skoða hvernig þær leiðir sem fara þarf til að ná fram þessum skemmtilega kosti, að losna við B-bitann, býr til aðra ókosti annars staðar í bílnum. Til að mynda eru A-bitar bílsins óvenju breiðir sem heftir nokkuð útsýni til hliða. Annað atriði er að þar sem ekki er lengur hægt að hengja öryggisbelti á B-bitann eru þau nú á sætinu sjálfu og fyrir vikið eru þau til aðeins meiri óþæginda og það er erfiðara að teygja sig í þau. Ford B-Max er byggður á grind Ford Fiesta og er því ekkert voðalega stór bíll þótt hann sé reyndar 110 mm lengri. Plássið í og við aftursæti er ekkert yfirdrifið þótt það sé nægjanlegt og ekki er mikið pláss eftir fyrir fætur í framsætum sem eru í grynnra lagi. Sama á við í farangursrými, þegar bíllinn er með fimm sæti uppi er það 318 lítrar sem er ekkert sérstakt en það er aðgengilegt og þannig í laginu að það taki við barnakerru af stærri gerðinni. Kostur er af fjölda möguleika í fellingu sæta, því einnig má leggja niður framsæti hægra megin.

Fáir keppinautar hérlendis

Akstur fjölnotabíla er sjaldnast spennandi og þar er þessi bíll engin undantekning. Reyndar má hann eiga það að sportlegir aksturseiginleikar Fiestunnar skila sér að nokkru leyti svo að hann virkar stöðugur og öruggur á vegi. Við reyndum hann með 1,5 lítra dísilvélinni sem er ekkert orkubúnt en skilar þó þokkalegu togi með fullan bíl upp í móti. Veghljóð var nokkuð sem útskýrist að einhverju leyti af því að hann var á lágbarða vetrardekkjum, naglalausum að vísu. Erfitt er líka að gera sér grein fyrir því hvort þessi bíll eigi sér einhverja samkeppnisaðila, þá kannski helst Opel Meriva og hinn nýja Fiat 500L. Hvorugir eru þó líklegir til að veita honum mikla samkeppni hérlendis, allavega á næstunni. Frekar má telja líklegt að kaupendur sem eru að skoða B-Max séu þá einnig að skoða bíla eins og Toyota Verso, Kia Carens eða Peugeot 5008 sem eru allir í næsta stærðarflokki fyrir ofan þennan bíl og þar af leiðandi verðflokki einnig. njall@mbl.is