Ingi fæddist í Reykjavík 2.4. 1921 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Magnús Guðmundsson, skipasmiður og eigandi Skipasmíðastöðvar Reykjavíkur, og k.h,, Kristín Benediktsdóttir húsfreyja.

Ingi fæddist í Reykjavík 2.4. 1921 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Magnús Guðmundsson, skipasmiður og eigandi Skipasmíðastöðvar Reykjavíkur, og k.h,, Kristín Benediktsdóttir húsfreyja.

Magnús var sonur Guðmundar, hreppstjóra og smiðs á Úlfljótsvatni Magnússonar, b. á Villingavatni, af Ásgarðsætt, bróður Sigríðar, ömmu Magnúsar Jónssonar, lagaprófessors og ráðherra. Móðir Magnúsar á Villingavatni var Þjóðbjörg, af Reykjakotsætt, systir Ingveldar, móður Jóns, langafa Halldórs Laxness. Bróðir Þjóðbjargar var Gísli, langafi Vilborgar, ömmu Vigdísar Finnbogadóttur. Móðir Guðmundar hreppstjóra var Ingveldur Pétursdóttir, af Fjallsætt og Reykjaætt. Kristín, móðir Inga, var dóttir Benedikts, b. að Ytra-Hóli í Fnjóskadal og í Skuggabjörgum Olgeirssonar.

Ingi lauk stúdentsprófi frá MR 1940, prófi í byggingaverkfræði frá HÍ 1946 og stundaði framhaldsnám við ETH í Zürich 1947-48. Hann var verkfræðingur hjá bæjarverkfræðingi í Reykjavík 1946-47 og 1948-61 en þá gerði hann m.a. áætlanir og uppdrætti og sá um byggingu aðalholræsis í Laugardal í Reykjavík. Ingi rak ásamt Ólafi Guðmundssyni eigin verkfræðistofu 1961-63 og gerði þá m.a. áætlanir, uppdrætti og útboðslýsingu af aðalholræsi í Fossvogsdal, Breiðholti og umhverfi og gerði heildaráætlun um fullnaðarfrágang gatna í Reykjavík, er þáverandi borgarstjóri, Geir Hallgrímsson, stóð fyrir slíku átaki.

Ingi var deildarverkfræðingur hjá borgarverkfræðingi í Reykjavík 1963-65 og hann var gatnamálastjóri í Reykjavík frá 1965 og þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Ingi sat í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 1950-70, í stjórn Byggingaverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands 1959-60 og var varaformaður félagsins 1960.

Eftirlifandi eiginkona Inga er Herdís Gunnarsdóttur Hall húsfreyja, og eignuðust þau einn son, auk þess sem Ingi átti þrjú stjúpbörn.

Ingi lést 16.11. 2004.