[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bílasýningunni í Genf er nýlokið og þar kenndi margra grasa eins og venjulega. Á þessari sýningu sem er ein sú stærsta í Evrópu keppast framleiðendur við að kynna nýjustu gerðir bíla sinna.

Bílasýningunni í Genf er nýlokið og þar kenndi margra grasa eins og venjulega. Á þessari sýningu sem er ein sú stærsta í Evrópu keppast framleiðendur við að kynna nýjustu gerðir bíla sinna. Margir eru um hituna og oftast ná ofursportbílar og ýktar gerðir lúxusbíla athygli pressunnar og almennings. Stór hluti svona sýninga fer þó fram hjá mörgum en það eru tilraunabílarnir sem eru nokkurs konar sýn framleiðenda á næstu ár og hvaða bíla þau munu bera í skauti sér. Hér ætlum við þó að gera því örstutt skil í texta en þó aðallega myndum.

Lengra komnir

Einn bíll sem vakti töluverða athygli fyrir hversu langt hann var kominn á tilraunastiginu var Honda Civic Tourer tilraunabíllinn. Framleiðslubíllinn verður reyndar kynntur á bílasýningunni í Frankfurt í september og ætla má að þetta sé nokkurn veginn endanlegt útlit hans, og svipar því mjög til útlits níundu kynslóðar Civic hlaðbaksins. Citroen Technospace er tilvísun í útlit næstu kynslóðar C4 Picasso og er ansi frumlegur, sérstaklega að innanverðu þar sem tveir tölvuskjáir, 7 og 12 tommu, sýna allar upplýsingar. Stórt skott og mikið glerþak eru áberandi og líklegt til að ná í framleiðsluútgáfur.

Mitsubishi hefur lengi gælt við rafbílatilraunir og skemmst er að minnast i-MiEV sem kynntur var árið 2009. Framleiðandinn kynnti því hreinræktaðan raftvinnbíl sem kallast CA-MiEV sem verður reyndar ekki framleiddur en sýnir alla þá möguleika sem í slíkum bílum finnast í dag. Kia Provo er hugmyndabíll frekar en tilraunabíll en sýnir hvers hann er megnugur þessi kóreski framleiðandi. Provo byggir á styttri gerð Rio undirvagnsins og er hugsanleg samkeppni við spennandi smábíla eins og frá Mini og Fiat. Bíllinn er fjögurra sæta og drifinn áfram af 1,6 lítra bensínvél með forþjöppu að framan, en afturhjólin fá hjálp frá rafmagnsmótor.

Þó að nýr Ferrari bíll frá Pininfarina myndi venjulega vekja mikla athygli á sýningu sem þessari stal þó nýr bíll hannaður af hönnuðum Ferrari senunni, en það var auðvitað LaFerrari. Sergio tilraunabíllinn er þó frumlegur og alls ekki ólíklegur til að sýna útlitsatriði sem sjást munu í öðrum Ferrari bílum framtíðarinnar. Spyker B6 er tilraun hollenska merkisins sem reyndi að kaupa Saab og blása lífi í glæðurnar og tekst það reyndar ágætlega með þessum tilraunabíl sem er ætlað að keppa við ódýrari gerðir Porsche í framtíðinni.

Jepplingar framtíðarinnar

Hinn kóreski framleiðandi SsangYoing er ekki dauður úr öllum æðum eins og frumsýning SIV-1 fjölflokkabílsins sýndi fram á. Hann er sagður vera bíll í stærri milliflokki og með mörg andlit enda stendur SIV fyrir Smart Interface Vehicle. Honum er þó líklegast ætlað að keppa í hinum ört stækkandi flokki jepplinga í framtíðinni. Einn sá laglegasti í flokki tilraunajepplinga var án efa Subaru Viziv en hann gefur tóninn fyrir útlit næstu Subaru kynslóða. Þó að vængjahurðir séu ekki líklegar til að ná framleiðslustiginu er tveggja lítra boxer dísilvél og rafmótorar fyrir afturhjól líklegri til að sjást innan skamms. Einn var sá framleiðandi sem vakti töluverða athygli fyrir framsækna línu tilraunabíla en það var hinn kínverskættaði Qoros. Tvær gerðir Qoros Cross voru í aðalhlutverki en einnig var sýnd útgáfa af langbak frá framleiðandanum.

Toyota kynnti tvö farartæki sem tilraunabíla sem vöktu mikla athygli, hvort á sinn hátt. Hvort kalla eigi i-ROAD bíl eða mótorhjól skal ósagt látið en það minnir helst á yfirbyggða útgáfu af Piaggo MP3 þríhjólinu. Farþeginn situr fyrir aftan ökumann eins og á mótorhjóli og farartækið er ekki breiðara en stórt mótorhjól. Einnig sýndi framleiðandinn opna útgáfu af GT86 sem er líkleg til að ná framleiðslustigi á næstunni. njall@mbl.is