Vigdís Finnbogadóttir kynnir sér og prófar sérútbúinn bíl. Myndin var tekin á bílasýningu í Reykjavík árið 1985.
Vigdís Finnbogadóttir kynnir sér og prófar sérútbúinn bíl. Myndin var tekin á bílasýningu í Reykjavík árið 1985. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er „fínasti“ bíll sem ég hef eignast og auðvitað hreint afbragð,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Þetta er „fínasti“ bíll sem ég hef eignast og auðvitað hreint afbragð,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Meðal margra forvitnilegra bíla í safni í Brákarey í Borgarnesi, sem félagar í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar hafa sett á laggirnar, er bíll sem Vigdís átti á síðari hluta forsetatíðar sinnar, en embættinu gegndi hún frá 1980 til 1996.

Bíllinn góði af gerðinni er Toyota Crown Royal Saloon, árgerð 1988 og var lúxusbíll á mælikvarða síns tíma. Vigdís átti bílinn í nokkur ár, en síðar komst hann í eigu sveitafólks vestur á Snæfellsnesi. Það aftur seldi fornbílamönnum í Borgarnesi bílinn á sl. ári fyrir eina krónu. Má því segja að salan sú hafi fremur verið táknræn en raunveruleg viðskipi.

Alltaf á fjölskyldubílum

„Bíll þessi var einstaklega vel tækjum búinn. Ég man eftir því að í honum var segulband og þegar ég stoppaði las ég stundum inn á það ýmislegt sem mér hafði dottið í hug, sem gjarnan urðu punktar í ræðum, ávörpum og greinum. Undir stýri erum við einbeitt og árvökul og mín reynsla er sú að á ferðalögum vakni oft góðar hugmyndir,“ segir Vigdís sem á forsetaárum sínum hafði að sjálfsögðu bæði embættisbíl og bílstjóra. Var þó oft á eigin bíl.

„Mér fannst ég frjálsari þannig og var engum háð á eigin bíl,“ segir Vigdís sem í dag ekur um á Toyota-jepplingi. Hún segist raunar alltaf hafa átt og verið á hefðbundnum fjölskyldubílum. Sér líki þeir best.

Meðal aðstandenda bílasafnsins í Borgarnesi er Sæmundur Sigmundsson, rútubílstjóri til áratuga. Sú var tíðin að Sigmundur ók um landið á sumrin með erlenda ferðamenn og í þeim ferðum var Vigdís oft leiðsögumaður. „Ég er sögufróð en hann þekkti nöfn á bæjum, fjöllum og tindum. Við Sæmundur náðum vel saman,“ segir Vigdís sem þykir skemmtilegt og á sinn hátt markvert að gamli bíllinn hennar sé orðinn sýningargripur á safni.

Bls 6-7 sbs@mbl.is