Gunnar H. Guðjónsson
Gunnar H. Guðjónsson
Eftir Gunnar H. Guðjónsson: "Flugvöllur á núverandi stað er þess vegna ótvírætt eini kosturinn sem höfuðborgarflugvöllur þegar tekið er tillit til allra þátta sem áhrif hafa á flug."

Þegar ákvarða skal staðsetningu flugvallar þarf að hyggja að mörgu.

Að sjálfsögðu þurfa til að koma yfirborðsveðurmælingar á svæðinu sem nota skal en einnig þarf að huga að þáttum sem eru ekki auðmælanlegir frá jörðu og er þá átt við vindafar frá yfirborði jarðar upp í gegnum það loftrými sem ætlað er til nota flugfars vegna aðflugs, lendingar, flugtaks og fráflugs.

Það er alkunna að landslag ræður miklu um feril og hegðun vinds sem ríkir á tilteknu svæði og er þar helst að nefna fjallabylgjur sem verða mjög öflugar í fjallendi ef vindhraði er mikill.

Fjallabylgjur valda upp- eða niðurstreymi eftir því hvar flugfarið er statt í bylgjunni og er styrkleiki þess í réttu hlutfalli við vindstyrk. Einnig má vænta ókyrrðar á vissum stöðum í bylgjunni.

Hið fyrirhugaða flugvallarstæði á Hólmsheiði er inni á áhrifasvæði fjallabylgja sem myndast aðallega í hvössum norðan- og norðaustanáttum vegna nálægðar við hálendi kringum Hvalfjörð (Esja, Móskarðshnjúkar, Botnssúlur) og einnig í sunnanáttum vegna Reykjanesfjallgarðs en þar ber Vífilfell hæst.

Flestir vita að öflugar norðan- og sunnanáttir geta verið nokkuð langvarandi hér á landi, einkum þó norðanáttir.

Sú meginregla er í gildi að þegar flogið er yfir fjalllendi skal leiðrétta til hækkunar lágmarkshæð yfir hindranir í samræmi við hækkandi vindhraða og byrjar sú leiðrétting við 30 hnúta vind í fjallahæð (ca. 15m/sek).

Þegar komið er til lendingar á Reykjavíkurflugvelli að austan og leiðin liggur yfir hálendið norður og austur af Reykjavíkursvæðinu er því vanalegt að bæta við lágmarkshæðir t.d. yfir Hólmsheiðarsvæðið og fljúga í aukinni hæð allt suður yfir Hafnarfjörð áður en lokaaðflug til lendingar hefst ef vindur er hvass af norðri eða norðaustri.

Við þau skilyrði er ekki fýsilegt að lækka flug niður í Hólmsheiðarsuðupottinn.

Telja má að rekstrartakmarkanir myndu verða meiri en svo að við verði unað þegar um er að ræða þjónustuflugvöll höfuðborgar við landsbyggð auk þess sem almenn öryggissjónarmið verður einnig að hafa í heiðri.

Reykjavíkurflugvöllur er vel staðsettur þar sem hann er nú, niður við sjávarmál í minni loftraka og úrkomu heldur en Hólmsheiðarsvæðið, og nánast alveg utan við áhrif landslags á vindafar, norðanáttin streymir í sínum hreina (og svala) Hvalfjarðarstreng yfir miðborgina og sunnanáttin er ekki heldur trufluð af landinu. Einnig eru aðflugs- og fráflugsferlar í allar áttir ótruflaðir af nærliggjandi fjalllendi en því er ekki til að dreifa á Hólmsheiði.

Flugvöllur á núverandi stað er þess vegna ótvírætt eini kosturinn sem höfuðborgarflugvöllur þegar tekið er tillit til allra þátta sem áhrif hafa á flug og flugrekstur.

Mikilvægt er að allir þeir sem völd og áhrif hafa átti sig á þessari staðreynd svo að hætt verði að afvegaleiða þessa umræðu með óraunsæjum hugmyndum.

Höfundur er fyrrverandi flugstjóri hjá Icelandair og hefur m. a. áralanga reynslu af innanlandsflugi.