Magnea Halldórsdóttir fæddist 22. ágúst 1931 á Vindheimum í Ölfusi. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 23. mars 2013.

Útför Magneu var gerð frá Hallgrímskirkju 27. mars 2013.

Við amma Magga vorum alltaf góðir félagar. Hún er ein af merkilegri persónum sem ég hef kynnst. Hafði alltaf eitthvað nýtt að sýna mér, t.d. fallegar myndir sem hún hafði klippt úr blöðum eða steina og skeljar sem hún tíndi í göngutúrum. Músíkin sem hljómaði úr hátölurunum var mjög fjölbreytt, allt frá afrískum kórsöngvum til færeyskrar popptónlistar og allt þar á milli og útfyrir. Hún var algjörlega fordómalaus á alla hluti. Það sem henni fannst flott var flott, alveg óháð því hvaðan það kom og hvernig það var gert.

Ég á margar æskuminningar þar sem ég og amma vorum að bralla eitthvað saman. Ég bjó í Amsterdam frá þriggja til átta ára aldurs og alltaf þegar við komum til Íslands var gist hjá ömmu og afa á Bragagötunni. Við amma fórum oft í gönguferðir og hún sagði mér þá frá ýmsum blómum og blómategundum. Einu sinni spurði hún mig hvort ég vildi koma í göngutúr og ég horfði einlægt á hana og sagði „Já, en ekki segja mér frá fleiri blómum, mér finnast þau ekkert mjög skemmtileg“. Hún skellihló og sagði mér og öðrum oft þessa sögu.

Afi og amma voru í Kvæðamannafélaginu Iðunni. Ég man eftir nokkrum kvæðalagaæfingum á Bragagötunni. Þar voru þau að kveða ásamt öðrum snillingum. Ég fékk áhuga og eftir að afi dó fór ég með ömmu í nokkrar ferðir með „Iðunni“. Það var notalegt að sitja í rútu með ömmu, hlusta á fólkið gera vísur og kveða og við amma hjálpuðumst að við að yrkja.

Ég bjó í Eyjum á þessum tíma og gisti nánast alltaf hjá ömmu þegar ég kom í bæinn. Einnig þegar ég varð eldri. Einu sinni fór ég út að skemmta mér og rölti svo á Bragagötuna eftir næturbröltið. Ég læddist inn, en hún vaknaði samt, kom niður og settist með mér inn í eldhús, bauð mér upp á kleinur og mjólk og áttum við innilegt spjall fram eftir morgni. Já, hún var alltaf til í að spjalla um allt milli himins og jarðar.

Frá því að ég man eftir mér var amma oft með videovélina á lofti. Í hvert sinn sem eitt barnabarnið var að gera eitthvað skemmtilegt þá var hún mætt til að mynda og þannig hafa margir gullmolarnir úr fjölskyldunni verið festir á filmu. Og einnig öll ferðalögin hennar. Hún elskaði að sýna okkur stiklur frá ævintýrum sínum um landið og heiminn.

Amma fór oft á tónleika. Ég fór með henni á Vínartónleika Sinfóníunnar í fyrra. Þá var hún komin með svolítið alzheimer og átti hún gott spjall við leigubílstjórann þar sem var farið ansi frjálslega með heimildir. En hún skemmti sér konunglega á tónleikunum, klappaði með og brosti breitt. Enda tónlistarunnandi af guðs náð.

Viku áður en hún lést kíktum við mamma á hana. Hún var mjög kvalin vegna samfalls í hryggjaliðum. Við leiddum hana á milli okkar nokkra metra í annað sæti. Þegar hún settist, horfði hún á okkur, andvarpaði grínslega með tunguna úti og brosti svo. Já, þótt málið og minnið væri nánast horfið þá hafði hún ekki misst húmorinn.

Amma, þú ert mér fyrirmynd um hvernig lifa skal lífinu lifandi og líta á heiminn á fordómalausan hátt.

Þín verður sárt saknað.

Þinn,

Andri.