Höfðingjar Denny Crane og Kunta Kinte taka tal saman.
Höfðingjar Denny Crane og Kunta Kinte taka tal saman.
Mandinka-stríðsmaðurinn Kunta Kinte er uppáhaldspersónan mín í sjónvarpssögunni. Hann og Denny Crane. Eins ólíkir og þeir nú eru.

Mandinka-stríðsmaðurinn Kunta Kinte er uppáhaldspersónan mín í sjónvarpssögunni. Hann og Denny Crane. Eins ólíkir og þeir nú eru. Kunta Kinte var slitinn frá ástvinum sínum á táningsaldri og fluttur í hlekkjum frá Gambíu til Bandaríkjanna, þar sem hann mátti streða á plantekrum illmenna ævina á enda. Þrátt fyrir yfirgengilegt andstreymi lét hann ekki bugast. Enda þótt búkurinn væri í fjötrum sveif andinn yfir höf og hæðir.

Rætur voru á dagskrá sjónvarps fyrir meira en þremur áratugum og átti ég ekkert endilega von á því að berja Kunta vin minn Kinte augum á ný.

Það gerðist þó í liðinni viku. Ég sat í makindum yfir nördahjörðinni í The Big Bang Theory og fokið hafði í dr. Sheldon Cooper, einn mesta furðufugl sem sögur fara af í sjónvarpi. Vinir hans vildu ekki snæða með honum flatböku, eins og þeir eru vanir á mánudögum, og fyrir vikið fékk hann sér nýja vini. Þeirra á meðal Kunta Kinte. Að vísu leikarann sem fór með hlutverk hans, LeVar Burton, en ég hef aldrei gert mikinn greinarmun á sjónvarpi og veruleika. Það er hégómi.

Þarna var hann þá kominn, Kunta Kinte. Staldraði að vísu stutt við, fældist þegar hann sér nördinn í karíókí, en uppskar eigi að síður dynjandi lófatak – bæði í sjónvarpssal og á Kjalarnesi.

Orri Páll Ormarsson