Þórður Björn Sigurðsson
Þórður Björn Sigurðsson
Eftir Þórð Björn Sigurðsson: "Getur verið að lögin sem heimila verðtryggingu fjárskuldbindinga standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar..."

Í ágúst 2009 sat ég fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna ásamt Arneyju Einarsdóttur og Marinó G. Njálssyni, þáverandi stjórnarmönnum í HH. Á fundinum kom sú ákvörðun nýju bankanna þriggja, sem þá voru allir enn í ríkiseigu, að kaupa skuldabréf úr peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna til tals.

Með kaupunum tóku ríkisbankarnir á sig stóran hluta taps þeirra sem áttu hlut í peningamarkaðssjóðum gömlu viðskiptabankanna þriggja. Þorri skuldabréfanna sem voru í sjóðunum var frá gömlu bönkunum sjálfum og tengdum fyrirtækjum á borð við Milestone, Stoðir/FL Group, Samson, Existu, Atorku, Baug og Eglu. Aðilum sem ekki reyndust borgunarmenn fyrir skuldum sínum.

Ég benti á að fyrst hægt væri að finna fé til að tryggja sparnað þeirra sem óafvitandi lánuðu óreiðumönnum peningana sína hlyti að vera hægt að finna fé til að tryggja sparnað þeirra sem kusu að verja honum í þak yfir höfuðið. Sparnað sem lántakendur hefðu mátt þurfa að horfa á brenna upp á verðbólgubáli sem markaðsmisnotkun lánveitenda tendraði. Þar sem bæði lántakendur og hluthafar í peningamarkaðssjóðum hefðu verið í góðri trú í viðskiptum sínum skyti það skökku við að bjarga öðrum hópnum en hlunnfara hinn.

Ég mun seint gleyma því sem Franek Rozwadowski, fulltrúi sjóðsins, sagði við okkur, brosmildur á svip, eftir að ég hafði lokið máli mínu: „Water under the bridge“. Með öðrum orðum; peningamarkaðssjóðir – búið og gert, stökkbreytt lán – borga og brosa.

Ég minnist þess ekki að Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, hafi haft miklu við orð Franeks að bæta. En Edda sat fundinn fyrir hönd sjóðsins, nýlega ráðin til starfa fyrir hann.

Hver veit, kannski hefur Edda verið búin að útskýra töframátt verðtryggingarinnar fyrir Franek. Töframátt sem myndhverfist í framréttum litla putta lántakandans og heljargripi lánveitandans á hendinni allri.

Er eignarréttur einstefnugata?

Í fasteignaviðskiptum er ekki óalgengt að kaupandi leggi til hluta af kaupverði fasteignar en fjármagni afganginn með láni. Lánið er jafnan veitt gegn veði í fasteigninni ásamt sjálfskuldaábyrgð lántaka. Vegna þeirra laga sem gilda um verðtryggingu fjárskuldbindinga sitja lánveitandi og lántakandi ekki við sama borð. Verðtryggingin ver kröfueign lánveitanda fyrir áhrifum verðbólgu á meðan stofnfjáreign lántakanda er óvarin fyrir sömu áhrifum.

Óhjákvæmilega kemur eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar upp í hugann í þessu sambandi: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Getur verið að lögin sem heimila verðtryggingu fjárskuldbindinga standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem maður sem tekur verðtryggt lán stendur ekki jafnfætis þeim sem lánið veitir með hliðsjón af eignarrétti beggja? Að með tilkomu verðtryggingar öðlist lánveitandi tvöfaldan eignarrétt á kostnað lántakanda sem verði að láta sér nægja einfaldan? Því hvað varð um friðhelgina, lagafyrirmælin og eignarnámsbæturnar í þeim tilfellum sem lánveitandi komst yfir stofnfjáreign lántakanda?

Peningar eru ekki verðmæti

Töframáttur verðtryggingarinnar er slíkur að króna sem maður lánar öðrum, króna sem í eðli sínu er ávísun á ákveðin verðmæti, hættir að vera einmitt það og öðlast í staðinn ákveðin verðmæti í sjálfri sér. Verðmæti sem eru fólgin í vörn gegn verðlagsþróun og viðvarandi virðisrýrnun krónunnar; verðbólgunni.

Í rökræðum um verðtryggingu lána brydda talsmenn verðtryggingarinnar stundum upp á þeirri röksemdafærslu að ef ég lána þér fyrir 10 lítrum af bensíni í dag eigi ég að geta keypt 10 lítra af bensíni þegar þú borgar mér til baka á morgun.

En hversu margir talsmenn verðtryggðra lána eru líka talsmenn verðtryggðra launa? Væri ekki allt eins hægt að halda því fram að ef ég sel einhverjum klukkutíma af tíma mínum í dag fyrir andvirði 10 lítra af bensíni að á morgun eigi ég að geta keypt 10 lítra af bensíni eftir klukkutíma vinnu?

Svarið við seinni spurningunni er auðvitað nei. Því ósanngjarnt væri að velta allri áhættunni af þróun olíuverðs yfir á vinnuveitandann. Með sömu rökum mætti segja að það væri fráleitt að ætla lántakandanum að bera alla áhættuna af þróun olíuverðs í fyrra dæminu.

Sanngjörn niðurstaða væri að báðir aðilar viðskiptanna deildu áhættunni af þróun verðlags. Til dæmis með lögbundnu nafnvaxtaþaki. Því peningar eru ekki verðmæti í sjálfu sér heldur ávísun á þau. Nema töfrar komi til.

Höfundur er í 1. sæti Dögunar í Reykjavík suður og fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Höf.: Þórð Björn Sigurðsson