Manlio Candi lést á Líknardeild LHS í Kópavogi þann 22. mars. Hann fæddist í Iesi í Anconahéraði á Ítalíu 5.9.1933. Foreldrar hans voru Attilio Candi, skósmiður, f. 13.3. 1908, d. 8.3. 1992 og Rosa Cenci Candi, húsmóðir, f. 21.11. 1910, d. 18.8. 1986. Bróðir hans var Bruno Candi, f. 1942, d. 2005, kvæntur Marcella Lancioni. Synir þeirra: Giacomo, Giampaolo og Giovanni.

Þann 19.10. 1954 kvæntist Manlio eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Ólafsdóttur Candi, framhaldsskólakennara og myndlistarmanni, f. 10.12. 1930 í Reykjavík. Börn þeirra eru 1) Marina, dósent, f. 6.9. 1960, maki Harald Ragnar Óskarsson, verkfræðingur, f. 20.12. 1957. Börn þeirra: Elfa Frið Haraldsdóttir, f. 18.3. 1990 og Leó Blær Haraldsson, f. 21.6. 1992. 2) Indro, arkitekt, f. 17.3. 1964, maki Heba Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari, f. 22.8. 1965. Synir þeirra: Karel Candi, f. 1.1. 1995 og Markús Candi f. 3.4.1999.

Manlio ólst upp í miðaldaborginni Iesi á Ítalíu. Að loknum grunnskóla lauk hann framhaldsskóla af tæknisviði. 17 ára kvaddi heimaborg sína og fór til Flórens á Ítalíu í guðfræðinám sem hann lauk 1953. Hann hugðist fara í framhaldsnám í guðfræði í S-Frakklandi en byrjaði á að læra frönsku. Hann kynntist þar verðandi eiginkonu sinni sem einnig var í frönskunámi við sama skóla. Haustið 1954 sigldi hann til Íslands á eftir unnustu sinni þar sem hann dvaldi lengstum til æviloka og iðraði þess aldrei.

Strax við komuna til Íslands fór Manlio að vinna í vélsmiðju og verkfræðistofu sem tækniteiknari. 1956-1957 stundaði hann nám í tækniháskóla í Róm á Ítalíu og síðan sneru hjónin aftur heim til Íslands. Þar starfaði hann fyrir verkfræðistofuna Traust hf. í Reykjavík í 10-11 ár. 1969 fluttist fjölskyldan til Toronto, Kanada. Þar vann Manlio sem hönnuður á verkfræðistofum en jafnframt stundaði hann nám í tækniháskóla í Toronto og lauk þaðan tæknifræðinámi. 1975 var aftur haldið heim. Landið dró hann sterkum böndum enda undi hann sér best á göngu um um fjöll og firnindi Íslands. Árið 1976 fékk Manlio íslenskan ríkisborgararétt.

1975 hóf Manlio störf hjá Álverinu í Straumsvík þar sem hann vann til ársins 2000, síðast í stöðu framkvæmdastjóra Tæknisviðs. Á þessu tímabili starfaði hann tímabundið annars vegar í Venesúela, 1988-1990, og hins vegar í Sviss, 2000-2003, þar sem hann stýrði uppsetningu nýrra álverksmiðja. Síðustu árin bjó hann með Sigríði eiginkonu sinni í Kringlunni 89 í Reykjavík.

Útför Manlio Candi fer fram frá Aðventkirkjunni, Ingólfsstræti 19, í dag, 2. apríl 2013, kl. 13.

„2. september, eftir langa lestarferð, næturdvöl á ódýru hóteli í Edinborg og tveggja daga sjóveiki kom ég til Reykjavíkur með eina litla ferðatösku og um það bil fimm sterlingspund í vasanum.

Gullfoss hafði lagst við akkeri utan hafnarinnar um nóttina. Ég vaknaði snemma, og enn hálf vankaður af sjóveiki, var ég komin upp á þilfar um sjöleytið. Sjórinn var spegilsléttur. Borgin var aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð. Húsþökin voru sérkennilega litrík. Ýmist rauð, blá eða í öðrum litum. Allt var mjög kyrrt.

Seinna lagði skipið að bryggju, og úr fjarska þekkti ég strax mína kæru „Sigrid“ með sitt ómótstæðilega bros.“

Svona hljómar kafli úr æviminningum sem faðir okkar ritaði fyrir fáeinum árum. Þetta var árið 1954. Þremur dögum seinna varð hann 21 árs, og 19. október gékk hann að eiga móður okkar. Við hjónavígsluna skildi hann ekki eitt einasta orð, en var gefið merki þegar hann átti að svara „yes“.

Við höfum verið svo lánsöm að eiga þennan pabba. Hann var alltaf kærleiksríkur og einstaklega þolinmóður við okkur. En það var þegar við fylgdumst með umgengni hans við barnabörn sín sem okkur varð enn ljósara hvílíkra forréttinda við höfðum verið aðnjótandi. Pabbi var óeigingjarnasti maður sem við höfum kynnst. Við vitum í raun ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann framkvæmt nokkuð án þess að það hafi verið fyrst og fremst með hag ástvina sinna í huga. Pabbi tók sjálfur að sér það verkefni að sækja og skutla barnabörnum sínum milli húsa árum saman, og þess á milli fóru hann og mamma með þau í langa bíltúra um helgar. Pabbi var mikill unnandi sígildrar tónlistar, en á þessum ferðum bauð hann barnabörnunum að hafa sína eigin uppáhaldstónlist með. Þannig ók hann um landið og hlustaði á tónlist sem hæfði smekk annarrar kynslóðar.

Síðustu árin glímdi pabbi við alvarleg veikindi, og við heimsóttum hann eins og við gátum. Hann var alltaf mjög ánægður að sjá okkur, en bað okkur yfirleitt fljótlega að fara að „sinna börnunum“, sem þó voru þá komin á unglingsaldur. Síðustu vikurnar gat pabbi lítið sem ekkert talað, en var þó vel meðvitaður um umhverfi sitt. Fram á síðasta dag reyndi pabbi að gera sig skiljanlegan með handahreyfingum og skilaboðin voru að við ættum ekki að verja of miklum tíma hjá sér, heldur að sinna fjölskyldum okkar og líta eftir þörfum mömmu. Þannig var pabbi. Hann hugsaði aldrei fyrst um eigin hag.

Pabbi kenndi ekki með orðum heldur með athöfnum. Sextíu ara ástarsamband hans við mömmu var okkur lifandi kennslustund í því sem máli skipti í lífinu: trúmennska, kærleikur og ósérhlífni. Það skiptir máli hvernig við lifum lífinu, og pabba tókst að gera það af einstakri prýði. Við sem þekktum hann nutum einstakra forréttinda.

Að endingu viljum við þakka starfsfólki Líknardeildar Landspítalans í Kópavogi innilega fyrir sértaka umhyggjusemi, nærgætni og einlæga hlýju. Ykkur verðum við ævinlega þakklát.

Marina og Indro.

Það sem stendur mest upp úr í minningum okkar barnabarna hans afa er allur tíminn sem hann tók sér til að vera með okkur. Allt frá því að fara með okkur í ferðir á sumrin og að því að sækja okkur úr skóla á grunnskólaárunum, þá lagði hann mikið upp úr því að viðhalda sterku sambandi við okkur barnabörnin sín. Við þekktum afa sem kærleiksríkan og óeigingjarnan. Ánægja annarra og sérstaklega fjölskyldu hans var honum alltaf fremst í huga, og veitti það honum mikla ánægju að sjá um fólkið sem honum þótti vænt um. Þannig upplifðum við afa í samskiptum okkar og návist við hann.

Aldrei kom fyrir að við sáum afa rífast eða þræta við neinn, og í samskiptum við aðra var hann alltaf mjög umburðarlyndur og „diplómatískur“. Hann leitaðist eftir friðsælum samskiptum og reyndi að passa að öllum kæmi vel saman. Hann var einnig alltaf í jákvæðu skapi og nægjusamur með það sem hann hafði.

Út frá þessu fordæmi lærðum við umburðarlyndi, að hugsa fyrst um aðra og að leitast eftir sátt og samlyndi í samskiptum við alla.

Elfa Frið, Karel, Leó Blær og Markús.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Heimsóknirnar á Baugsveg 13 í Skerjafirði til móðurbróður míns, Ólafs, konu hans Ástu og barna þeirra Sigríðar, Hönnu og Ólafs eru mér ógleymanlegar, þrátt fyrir að um hartnær 60 ára gamlar minningar sé að ræða. Það sem var einstakt við heimsóknir til þeirra, var einlæg lífsgleði og viðleitni til að miðla til gesta tónlist og söng, sem öll fjölskyldan stóð saman að af mikilli list. Leikið var á orgel, gítar og ekki hvað síst mandólín. sem ekki heyrðist í á mörgum heimilum. Fljótlega hleyptu þær systur heimdraganum. Hanna fór til Danmerkur og settist þar að til langframa, en Sigríður fór til Frakklands til námsdvalar, þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, Manlio Candi.

Með tilkomu Manlios bættist nýr strengur í listhörpu Baugsvegsfjölskyldunnar. Manlio hafði mjög næma tilfinningu fyrir náttúrunni og sýndi okkur með glæsilegum litljósmyndum, upp á hvað íslensk náttúra hefur að bjóða. Myndlistarþáttur Sigríðar var ekki síðri, þannig að auk söngs og hljóðfærasláttar var boðið upp á myndlistasýningar í heimsóknum á Baugsveg. Ég tel þessa upplifun mína sem ungs drengs, hafa verið fyrsta en mjög mikilvægt skref í að meta gildi náttúrunnar, en líta ekki alfarið svo á, eins og löngum var lenska að náttúran væri lítils virði, ef ekki væri unnt að nýta hana til fjárhagslegs ábata. Hraði nútímans býður upp á sífellt færri tækifæri til að rækta persónuleg kynni. Það er það dýra gjald, sem við greiðum fyrir að lifa í nútíma þjóðfélagi, sem vissulega býður upp á fjölbreyttari tækifæri en áður, en leiðir einnig til fórna í að rækta mannleg samskipti og aukins tengslaleysis náinna ættingja. Við vottum Siggu, Marinu, Indro og fjölskyldum þeirra innilegrar samúðar. Eftir lifir minningin um einstakan mann, hláturmildan gleðigjafa hvar sem hann fór.

Sveinn Aðalsteinsson og fjölskylda.

Með Manlio Candi er genginn góður vinnufélagi og vinur sem við minnumst með hlýju og virðingu. Manlio hóf störf hjá ISAL haustið 1975 í deild þeirri sem hafði umsjón með nýbyggingum og framkvæmdum. Að undanskildu tveggja ára leyfi vann hann óslitið hjá fyrirtækinu í aldarfjórðung, síðustu árin sem framkvæmdastjóri tæknisviðs. Er óhætt að segja að fáir hafi haft meiri og farsælli aðkomu að framförum, framkvæmdum og þróun í starfsemi álversins.

Fljótlega eftir að Manlio hóf störf hjá ISAL tók hann þátt í að stækka kerskála 2 og í kjölfarið stýrði hann byggingu þurrhreinsistöðva sem hreinsa loftið af kerunum; þær voru bylting í umhverfismálum álversins og bættu til muna vinnuumhverfi starfsmanna.

Stærsta verkefni Manlios hjá ISAL var bygging kerskála 3, sem tekinn var í notkun árið 1997. Við þá geysiviðamiklu og flóknu framkvæmd gegndi hann stöðu aðstoðarverkefnisstjóra og er skemmst frá því að segja að verkið tók skemmri tíma og kostaði minna fé en ráðgert var. Var það ekki síst Manlio að þakka; hann hafði glögga yfirsýn yfir verkið allt og fylgdi hverjum áfanga þess vel eftir. Meðal margra annarra stórra verkefna sem Manlio stýrði má nefna uppsetningu á steypuvél og steypuofnum sem ál, sem framleitt er í Straumsvík, fer um enn í dag.

Manlio var framúrskarandi verkefnastjóri, án efa í hópi þeirra bestu sem starfað hafa hjá ISAL frá upphafi. Hann var harðduglegur og samviskusamur, hafði verklegt innsæi, var nákvæmur og gerði áætlanir sem iðulega stóðust og gott betur.

Hann var þægilegur í samstarfi og kom hreint fram. Hann gerði kröfur til samstarfsmanna ekki síður en til sjálfs sín, var fylginn sér en ávallt sanngjarn. Hann miðlaði fúslega af reynslu sinni og þekkingu. Síðast en ekki síst var hann ætíð ljúfur og glaðlegur í viðmóti og átti til að söngla lagstúf við vinnu sína. Hann var vel liðinn af samstarfsfólki og naut óblandinnar virðingar.

Eftirspurn var eftir þekkingu og hæfileikum Manlios hjá móðurfélagi ISAL. Var hann m.a. fenginn til að setja upp þéttflæðikerfi í einni af verksmiðjum félagsins í Venesúela og fór í því skyni í tveggja ára leyfi frá störfum hjá ISAL eins og að framan er getið. Aldrei kom þó annað til greina en að snúa aftur til Íslands. „Framtíðin er Ísland,“ skrifaði hann í ISAL-tíðindi meðan á dvöl hans þar ytra stóð. Hann unni Íslandi og talaði fallega um land og þjóð við þá fjölmörgu útlendinga sem hann átti samskipti við.

Við sem bárum gæfu til að þekkja Manlio og starfa með honum erum ríkari fyrir vikið. Fyrir hönd hans mörgu samstarfsmanna og vina í Straumsvík sendi ég Sigríði konu hans, börnum þeirra og aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Rannveig Rist.

Þennan kæra bróður og vin kveð ég með söknuði, virðingu og trega. Hann var traustur, trúaður og vinfastur. Í dagfarslegri umgengni var hann hið mesta prúðmenni. Skarpgreindur var hann og vel látinn í starfi hér heima sem erlendis – lét þó ekki mikið yfir sér. Ég þakka honum fyrir það sem hann gerði fyrir kirkjuna okkar í tali og tónum.

Manlio unni sígildri tónlist, söng mörg ár í kirkjukórnum undir minni stjórn og urðu kynni okkar mjög náin í söngnum. Hann var bæði tónviss, hafði mjög gott hljómskyn og jafnan fús til hjálpar, þegar þörf var fyrir söng. Rökvís og rökfastur var hann, glöggur, ákveðinn í sjónarmiðum sínum, en víðsýnn og jafnan opinn og tilbúinn að ræða og virða viðhorf annarra.

Kæra Sigríður, Marína, Indro, aðrir ættingjar og góðvinir. Meðtakið hlýjustu samúð okkar Sólveigar og fjölskyldunnar allrar. Minningamyndin er fögur og ljómar yfir sorgarsviðinu. Bíðum endurfunda á landi lifenda samkvæmt fyrirheiti Krists. Guð blessi ykkur öll og styrki.

Jón Hjörleifur Jónsson.