Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson er farinn að láta til sín taka með nýliðum Sarpsborg 08 í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann lagði upp fyrra mark liðsins í góðum 2:1-sigri á Viking í 2. umferð deildarinnar í gær.

Guðmundur Þórarinsson er farinn að láta til sín taka með nýliðum Sarpsborg 08 í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann lagði upp fyrra mark liðsins í góðum 2:1-sigri á Viking í 2. umferð deildarinnar í gær. Í leiknum mætti Guðmundur æskuvini sínum og félaga frá Selfossi, Jóni Daða Böðvarssyni, sem skoraði einmitt mark Viking í leiknum. Báðir eru þeir á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku en þeir léku saman upp í meistaraflokk hjá Selfossi áður en Guðmundur fór svo til ÍBV.

„Það var fáránlega gaman að spila á móti Jóni Daða. Við höfum spilað saman hlið við hlið síðan við vorum fimm ára og draumurinn var alltaf að komast í atvinnumennsku, svo þetta var alveg frábært. Ég mun stríða honum eitthvað á úrslitunum en hann er líka með „skotrétt“ fyrst hann skoraði,“ sagði Guðmundur léttur við Aftenbladet.

Indriði Sigurðsson, fyrirliði Viking, fór meiddur af velli snemma leiks eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg. sindris@mbl.is