Einkareknir fjölmiðlar í Myanmar (Búrma) gáfu á mánudag út dagblöð í fyrsta sinn í áratugi, í kjölfar þess að strangar reglur um ritskoðun voru afnumdar í ágúst síðastliðnum.

Einkareknir fjölmiðlar í Myanmar (Búrma) gáfu á mánudag út dagblöð í fyrsta sinn í áratugi, í kjölfar þess að strangar reglur um ritskoðun voru afnumdar í ágúst síðastliðnum. Að minnsta kosti fjögur blöð á búrmísku fóru frá því að vera vikublöð í dagblöð í gær en undir herforingjastjórninni sem tók völd 1962 var útgáfa dagblaða alfarið á forræði stjórnvalda.

Alls hafa sextán vikublöð fengið leyfi fyrir daglegri útgáfu, m.a. flokksblað flokks baráttukonunnar Aung San Suu Kyi, sem var haldið í stofufangelsi í nærri 15 ár en situr nú á þingi.

Vonir standa til þess að með nýjum fjölmiðlalögum, sem samin voru af sérstakri fjölmiðlanefnd, verði frelsi fjölmiðla tryggt en margir hafa áhyggjur af ójafnri samkeppnisstöðu aðila, þar sem blöð ríkisrekinna fjölmiðla eru mun ódýrari en blöð einkarekinna fjölmiðla og oft jafnvel gefin.