Dögunarrútan Hvert með sínu lagi.
Dögunarrútan Hvert með sínu lagi.
Guðrún Sóley Gestsdóttir gudrunsoley@mbl.is Tilkynnt var í gær að ekkert yrði úr sameiginlegu framboði Pírata, Dögunar og Lýðræðisvaktarinnar.

Guðrún Sóley Gestsdóttir

gudrunsoley@mbl.is

Tilkynnt var í gær að ekkert yrði úr sameiginlegu framboði Pírata, Dögunar og Lýðræðisvaktarinnar. „Aldrei stóð beinlínis til að sameina framboðin en við skoðuðum vissulega möguleikann,“ segir Jón Þór Ólafsson sem skipar 1. sæti á framboðslista Pírata í Reykjavík suður. „Aðeins var um upplýsingaöflun að ræða af okkar hálfu.“

Í tilkynningu sem Píratar sendu frá sér í gær segir m.a.: „Stefnur og áherslumál flokkanna eru að sumu leyti misjöfn og rétt þykir að halda sérkennum þeirra, sérstöðu og sjálfstæði til haga.“ Að sögn Jóns Þórs hefðu tæknilegar kröfur líka sett strik í reikninginn. „Ljóst er að nauðsynlegt hefði verið að setja upp öll framboð sem tækju þátt frá byrjun. Okkar upplýsta niðurstaða er sú að ógerlegt væri að setja upp ný framboð áður en frestur rennur út þann 12. apríl, “ segir hann.

Stóð aldrei til

Margrét Tryggvadóttir, frambjóðandi Dögunar, tekur í sama streng. „Aldrei hefur staðið til að við byðum fram saman. Fréttir þess efnis að hætt hafi verið við slík áform eiga því ekki við rök að styðjast. Hins vegar var skoðað hvort hægt væri að lýsa yfir kosningabandalagi en ekkert framboðanna var reiðubúið að kasta þeirri vinnu sem farið hefur fram við undirbúning fyrir róða,“ segir hún. „Málefnamunurinn á framboðunum er einfaldlega of mikill til að hægt hefði verið að sameina framboðin,“ segir hún.

Lýður Árnason, frambjóðandi Lýðræðisvaktarinnar, segir að ekki hafi gefist tími til að mynda bandalag. „Töluverður hugur var þó til þess milli Pírata og Lýðræðisvaktarinnar, en við munum þess í stað eiga í góðri samvinnu,“ segir Lýður. Hann spáir að Lýðræðisvaktin nái 5% fylgi og telur að Píratar eigi góða möguleika á því líka.