Hæstiréttur Indlands hefur synjað svissneska lyfjafyrirtækinu Novartis um einkaleyfi á nýrri gerð krabbameinslyfsins Glivec.

Hæstiréttur Indlands hefur synjað svissneska lyfjafyrirtækinu Novartis um einkaleyfi á nýrri gerð krabbameinslyfsins Glivec. Indversk einkaleyfisyfirvöld höfðu áður hafnað umsókn fyrirtækisins, á þeim forsendum að nýja gerð lyfsins væri aðeins örlítið frábrugðin þeirri eldri en lyfjafyrirtæki hafa löngum verið gagnrýnd fyrir að sækja um einkaleyfi á lítillega breyttum lyfjum, til að koma í veg fyrir framleiðslu og sölu ódýrari samheitalyfja.

„Úrskurðurinn er afturför fyrir sjúklinga og mun hindra læknisfræðilegar framfarir vegna sjúkdóma sem engar árangursríkar meðferðir eru til við,“ sagði Ranjit Shahani, framkvæmdastjóri Novartis á Indlandi.

Baráttufólk á sviði heilbrigðismála fagnaði hins vegar niðurstöðunni. „Úrskurðurinn er mikill léttir,“ sagði Leena Menghaney, lögfræðingur hjálparsamtakanna Læknar án landamæra. „Þetta er stórt skref í átt að lyfjum á viðráðanlegu verði fyrir fátæka,“ sagði Anand Grover, lögfræðingur fyrir Hjálparsamtök krabbameinssjúkra á Indlandi, samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Mörg af stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims eru á Indlandi og margir spá því að þau muni hafa mikinn hag af því þegar einkaleyfi ýmissa lyfja renna út á næstu árum.

Pratibha Singh, lögfræðingur fyrir samheitalyfjafyrirtækið Cipla, sagði úrskurðinn skapa fordæmi sem kæmi í veg fyrir að alþjóðleg lyfjafyrirtæki gætu fengið ný einkaleyfi á Indlandi fyrir lítillega „uppfærð“ lyf. Einkaleyfi yrðu aðeins veitt vegna raunverulegrar nýsköpunar en ekki vegna minni háttar breytinga á eldri lyfjum.

holmfridur@mbl.is

Lyf og einkaleyfi
» Glivec er m.a. gefið við meðferð við langvinnu hvítblæði.
» Indversku einkaleyfislögin tóku gildi árið 2005.
» Einkaleyfin gilda yfirleitt í 20 ár en fyrsta fyrirtækið sem framleiðir samheitalyf að þeim tíma liðnum fær einkarétt á því lyfi í 180 daga.