<strong>Hjálp</strong> Neyðarástand ríkir á Kýpur og í gær útdeildu liðsmenn hjálparsamtaka matargjöfum til fólks, sem er í vanda statt vegna efnahagsástandsins.
Hjálp Neyðarástand ríkir á Kýpur og í gær útdeildu liðsmenn hjálparsamtaka matargjöfum til fólks, sem er í vanda statt vegna efnahagsástandsins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Útlitið er slæmt. Fólki finnst stjórnvöld veita takmarkaðar upplýsingar og því er óvissan mikil. Þá þrengir stöðu almennings að heimildir til úttektar úr bönkum hafa verið þrengdar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Útlitið er slæmt. Fólki finnst stjórnvöld veita takmarkaðar upplýsingar og því er óvissan mikil. Þá þrengir stöðu almennings að heimildir til úttektar úr bönkum hafa verið þrengdar. Enginn fær að taka út meira en 300 evrur á dag og það dugar skammt,“ segir Inga Karlsdóttir. Hún hefur sl. 30 ár verið búsett í höfuðborginni Nicosiu sem er á gríska hluta eyjarinnar.

Syrt í álinn á síðustu árum

Viðsjár hafa verið í Kýpur; efnahagskreppa ríður yfir og bankar voru lokaðir í tólf daga, eða fram til síðasta fimmtudags, til að fyrirbyggja áhlaup. Kýpverska ríkið hefur fengið fá 10 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Með því er sagt að búið sé að bjarga fjárhag ríkisins í bili. Inga segir stöðuna þó vera brothætta.

„Við höfum fundið síðustu ár að syrt hefur í álinn. Útgjöld ríkisins hafa aukist umfram innistæðu, lán hafa verið slegin til að stoppa í gatið og það hefur skapað misvægi í gjaldeyrismálum,“ segir Inga. Hún segir marga Kýpverja áfram um að þátttöku í Evrusamstarfinu verði hætt og kýpverska pundið verði aftur lögeyrir þjóðarinnar. Hún kveðst sjálf andvíg því.

Lífeyrissjóðir tæmdir

„Annar bankinn hér á Kýpur er gjaldþrota og um starfsemi hins hafa verið settar þær takmarkanir að fólk færi aðeins 40% innistæða sinna greiddar út. Því má segja að hinir forsjálu fari verst út úr þessum hamförum. Þá hafa lífeyrissjóðir hér verið tæmdir,“ segir Inga og bætir við að þegar halla fór undan fæti á Kýpur hafi margir kaupmenn t.d. í Nicosiu lokað verslunum sínum. Aðrir hafi nýtt sér það og komið t.d. upp veitingastöðum í auðu verslunarhúsnæði. Sjálf rekur Inga veitingahús og býður grænmetisrétti.

„Tekjur af því duga skammt. Maðurinn minn vinnur hjá bílaumboði og starfshlutfall hans hefur skert. Hann er því að líta í kringum sig eftir starfi í öðru landi og fleiri eru í hans sporum.“

ÓLGA Í SAMFÉLAGINU

Berja ekki búsáhöldin

Það er gömul saga og ný að þegar harðnar á dalnum og erfiðleikar í efnahagsmálum skapast myndast ólga í samfélaginu. Inga Karlsdóttir segir að ástandið á Kýpur nú sé að nokkru leyti svipað því og var á Íslandi í kjölfar hrunsins haustið 2008. Fólk vantreysti stjórnvöldum og bankakerfinu og finnst það ekki fá svör við spurningum. Þó hafi hvergi komið til átaka eða mótmæla. Sannarlega sé þungt í fólki þó engir hafi enn dregið fram potta, pönnur eða önnur búsáhöld í þeim tilgangi að krefjast breytinga og réttlætis.