Christopher Pissarides
Christopher Pissarides
Kýpverjinn og handhafi minningarverðlauna Nobels í hagfræði, Christopher Pissarides, ritaði athyglisverða grein í FT fyrir helgi.

Kýpverjinn og handhafi minningarverðlauna Nobels í hagfræði, Christopher Pissarides, ritaði athyglisverða grein í FT fyrir helgi. Í greininni rekur hann hvernig Kýpur hefur orðið leiksoppur áhrifamikilla stofnana og ríkja og segir meðal annars:

Það hvernig félagarnir á evrusvæðinu hafa komið fram við Kýpur sýnir að í stað þess að á gjaldmiðilssvæðinu sé samstarf jafningja er um að ræða sundurleitan hóp landa þar sem hagsmunir stærri ríkjanna vega þyngra en hagsmunir heildarinnar.“

Pissarides, sem einnig er prófessor við LSE, bendir líka á hvernig þríeykið, seðlabanki evrunnar, framkvæmdastjórn ESB og AGS, með stuðningi Þýskalands, hefur ráðskast með Kýpur en jafnframt verið óstöðugt í afstöðu sinni; sagt eitt í dag og annað á morgun.

Ástandinu á eyjunni lýsir hann sem nöturlegu. Göturnar séu tómar, örvæntingin alls ráðandi og brosin horfin af andlitum íbúanna. Ekkert þessu líkt hafi nokkru sinni fyrr gerst.

Og hann veltir fyrir sér næstu skrefum en segir erfitt um þau að spá: „Það eru gaslindir undan ströndinni sem gefa einhverja von, en „þeir“ gætu tekið þær líka.“

Þetta er „stöðugleikinn“ sem Samfylkingin og systurflokkurinn bjóða upp á í komandi kosningum.