Sigríður Árnadóttir fæddist í Bræðratungu á Stokkseyri 22. apríl 1923. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 16. mars 2013.

Sigríður var jarðsungin frá Laugarneskirkju 27. mars 2013.

Það var stutt milli Guðrúnar og Sigríðar, föðursystra okkar frá Bræðratungu en Guðrún lést fyrir tíu mánuðum. Bæði nöfnin voru gefin þeirri elstu okkar. Þetta eru sterk og rammíslensk nöfn og kunnu þær báðar betur við full nöfn og engin uppnefni. En þær voru þó í okkar augum Gunna frænka og Sigga frænka. Báðar miklir karakterar og einstakar, hvor á sinn hátt. Elskuðu þetta land og ferðuðust saman um jökla og óbyggðir á yngri árum. Könnuðu hin ósnortnu víðerni og báru mikla virðingu fyrir náttúrunni og gjöfum hennar. Einnig ferðuðust þær mikið erlendis, bæði saman og með mökum. Sigríður rifjaði upp á sl. ári þá 89 ára, ferðalag þeirra systra, stuttu eftir stríð, frá München til Suður-Ítalíu, Pompei og eyjarinnar Caprí. Hún gat rifjað upp ferðalagið eins og að það hefði gerst í gær. Minni hennar var óbrigðult allt fram á síðasta dag og hennar verður saknað þegar spurningar vakna sem fáir geta svarað nú, að þeim systrum horfnum.

Hann var stór barnahópurinn í fjölskyldunni á sjöunda áratugnum og gekk mikið á þegar við hittumst. Boðin voru yfirleitt löng, mikið borðað, málin krufin og þarna mættust sjónarmið harðra kommúnista og sjálfstæðra atvinnurekenda en allir skildu sáttir, allavega í minningunni. Við krakkarnir hlustuðum á og tókum svo þátt eftir því sem árin liðu. Þetta voru yfirleitt dagslangar samverustundir sem voru dýrmætar. Tíminn var metinn á annan hátt þá.

Oft vorum við yngstu systurnar settar í pössun hjá Siggu og Einari og þeirra börn hjá okkur og þá var yfirleitt mikill metingur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, hvernig hlutirnir væru gerðir, hvað væri borðað og hvar væri betra að búa. Sennilega hefur þetta hljómað eins og hálfgert tuð í eyrum Sigríðar án þess að hún hastaði á barnahjalið. Hún tók okkur sem fullorðnu fólki.

Það rifjast líka upp sunnudagsbíltúrar, berjaferðir og grasaferðir þar sem við lærðum muninn á hreindýramosa og fjallagrösum og heimsóknir að sumarlagi á ættaróðalið Útey sem fyrir okkur var sveipað ævintýraljóma.

Við kveðjustund minnumst við Sigríðar Árnadóttur með virðingu og þökk fyrir langa og farsæla ævi. Blessuð sé minning hennar.

Guðrún Sigríður,

Ásdís Ýr og Sigrún Björk Jakobsdætur.