Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi nú fyrir helgi að óska eftir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um byggingu nýs framhaldsskóla í bænum.

Lára Halla Sigurðardóttir

larahalla@mbl.is

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi nú fyrir helgi að óska eftir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um byggingu nýs framhaldsskóla í bænum. Tillagan kom frá fræðsluráði bæjarins og var hún samþykkt samhljóða á fundinum. „Bréf verður sent til menntamálaráðherra eftir páska þar sem óskað verður eftir viðræðum,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Hinir skólarnir sprungnir

Í bænum eru tveir framhaldsskólar, Iðnskólinn í Hafnarfirði og Flensborgarskólinn. „Það er alveg ljóst að framhaldsskólar bæjarins anna ekki eftirspurn unglinga sem sækjast eftir námi í framhaldsskólum Hafnarfjarðar,“ segir Guðrún. „Við höfum fengið skýr skilaboð um að hinir skólarnir í bænum séu sprungnir.“

Búið að taka frá lóð

Bærinn hefur þegar tekið frá lóð fyrir skólann og er gert ráð fyrir honum miðsvæðis í Vallahverfinu. Hugmyndin um nýjan skóla er ekki ný af nálinni og hefur Hafnarfjörður áður óskað eftir viðræðum um byggingu nýs skóla. „Bærinn hefur alltaf fengið þau skilaboð þegar send hefur verið beiðni um viðræður að við séum ekki næst í röðinni,“ segir Guðrún. Í dag er aftur á móti búið að byggja þá skóla sem voru framar í röðinni þegar síðast var óskað eftir viðræðum. Þetta voru meðal annars framhaldsskólarnir í Mosfellsbæ og Grindavík. „Við teljum okkur vera komin mjög framarlega í röðina,“ segir Guðrún. Hún segir engar hugmyndir liggja fyrir um stærð skólans og upphaflega hugmyndin hafi verið sú að skólinn yrði listnámsskóli. „Nú ætlum við að prófa aftur og erum opin fyrir öllum hugmyndum,“ segir Guðrún.

FLENSBORG RÚMAR EKKI ALLA

Ekki pláss

„Við höfum ekki getað tekið við öllum,“ segir Einar Birgir Steinþórsson, skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði. „Við höfum einbeitt okkur að nýnemunum,“ segir hann. Þó komast ekki allir að og fá eldri nemendur sem vilja hefja nám á ný eftir hlé ekki alltaf pláss. Skólinn rúmar um áttahundruð nema eftir stækkun fyrir nokkrum árum og segir Einar ekki mögulegt að stækka skólann frekar.

„Það er fullkomin þörf fyrir það að huga að nýjum skóla,“ segir Einar.