Karl úr Breiðholtinu skrifar Vísnahorninu um pólitík og makríl og er mikið niðri fyrir.

Karl úr Breiðholtinu skrifar Vísnahorninu um pólitík og makríl og er mikið niðri fyrir. Hann segir að frá því Íslendingar hafi sótt um aðild hafi ESB „verið við það að bresta í böndum, atvinnuleysi þar alltaf að aukast og er mælt í skelfilegum tölum“.

Ennfremur skrifar hann: „Í samningunum hafa verið „opnaðir kaflar“ einn af öðrum en ekki rætt um þau atriði sem liggur í augum uppi að mikill ágreiningur er um eins og til að mynda að forræðið á fiskimiðum okkar flytjist til Brussel skv. grundvallareglum ESB í sjávarútvegsmálum. Á sama tíma hefur verið háð makrílstríð m.a. við þjóðir Evrópusambandsins sem höfuðóvini, gefinn út kvóti til handa okkur Íslendingum í harðri andstöðu við fyrrnefndar þjóðir og atvinnumálaráðherra hælt sér af þeirri frammistöðu.“

Um makrílstríðið og forræði á fiskimiðum Íslendinga varð eftirfarandi bragur til í Breiðholtinu undir yfirskriftinni „Frelsisóður til makrílsins (p.s. um máttinn, dýrðina og valdið í Brussel):

Makríll er fiskur sem syndir svo víða

í sjónum

og sinnir ei reglum frá hátt- eða lágt

settum Jónum.

Menn hnakkrífast um þessa fiska' er í

hafinu sveima

og fiskimenn veiða – því þeir éta á slóð

þeirra heima.

Þjófkenndir nánast í þingum og

evrópskum höllum,

þvílík er ógnin sem stafar af íslenskum

köllum

(sem virðingar ættu af vísindum skilið

að njóta

þeir veiða jú allir sinn fisk eftir

útpældum kvóta).

Heimspressan fyllist af hótunum gegn

þessum mönnum

sem helst greiða drápsskuldir þjóðar

með sínum önnum

og fremstar í stríðinu fara þær evrópsku

þjóðir

sem finnast að íslenskum bjóðist þar

kostirnir góðir.

En íslenskur ráðherra stendur hér

keikur í stafni

og styður vorn málstað í íslensku

laganna nafni.

Fráleitt að stríð þetta væri og útséð um

auðlindagjaldið

ef æðst væri í Brussel mátturinn,

dýrðin og valdið.

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is