Geysilegt Ferðamenn vilja margir koma að Geysi, m.a. þessir sem voru á ferð á páskadag. Mikilvægt er að ná góðum myndum af heimsókninni.
Geysilegt Ferðamenn vilja margir koma að Geysi, m.a. þessir sem voru á ferð á páskadag. Mikilvægt er að ná góðum myndum af heimsókninni. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Þó að enn séu þrír mánuðir í að ferðamannastraumurinn nái hámarki hafa ferðaskrifstofur þegar neyðst til að vísa hópum ferðamanna frá – það hefur einfaldlega ekki tekist að finna fyrir þá gistingu og aðra þjónustu hér á landi yfir háannatímann. „Þetta er í fyrsta sinn sem við finnum verulega fyrir skorti á hótelrými,“ segir Kristín Sif Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Atlantik.

Nú stefnir í enn eitt metárið í ferðamannabransanum og Íslandsstofa gerir ráð fyrir 770-800.000 ferðamönnum.

Ferðaskrifstofan Atlantik skipuleggur ferðir fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem vilja kíkja í land en einnig fyrir hópa sem hingað koma í hvataferðir, ráðstefnur eða á viðburði. Kristín Sif segir að nú stefni í 35% aukningu í þessum ferðum miðað við árið í fyrra. „Og var þó 2012 gott,“ segir hún.

Kristín bendir á að hvatahópar komi að mestu leyti utan háannatíma, þ.e. að vori og hausti og dvelji oft frá fimmtudegi til sunnudags. Hingað til hafi ekki verið mikið mál að útvega gistinu á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma en nú sé öldin önnur. „Við höfum lent í því að þurfa beinlínis að vísa frá okkur verkefnum vegna þess að við finnum ekki viðeigandi hótel,“ segir hún. September sé t.d. að verða þéttbókaður á hótelum í Reykjavík. Þessi vandi snerti einkum stóra hópa sem séu með ákveðnar óskir um dagsetningar.

Fleira er komið að þolmörkum því Kristín Sif segir að farið sé að bera á skorti á rútum og leiðsögumönnum yfir háannatímann. Það gæti því orðið verulegt púsluspil að taka á móti farþegum í skemmtiferðaskipum þegar mörg leggja að bryggju í einu. Svoleiðis púsluspil gekk vel upp 18. júní í fyrra en þá voru sex skemmtiferðaskip í höfn í Reykjavík. Dagurinn var kallaður stærsti dagur íslenskrar ferðaþjónustu en nú stefnir í að a.m.k. þrír til fjórir dagar verði svipaðir í sumar en þó ekki stærri, að sögn Ólafíu Sveinsdóttur sem stýrir móttöku skemmtiferðaskipa hjá Atlantik. Í fyrra hafi þurft að setja fjöldatakmarkanir í ferðir, t.d. um Gullna hringinn, vegna þess að ekki fengust rútur eða borð á veitingastöðum fyrir fólkið, og líklega verði að það sama uppi á teningnum í ár. Þá stefni í að sumarið 2014 verði stærri dagar en 18. júní í fyrra.

„Ánægjulegt vandamál“

Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel, eins af dótturfyrirtækjum Icelandair, hefur svipaða sögu að segja. Fyrirtækið skipuleggur ferðir fyrir hópa og einstaklinga og tekur á móti farþegum skemmtiferðaskipa. Alls staðar sé aukning, að jafnaði á bilinu 15-20%, eftir því sem fyrirspurnir og bókanir gefi til kynna. Fjölgun í hvataferðum sé um 20%. Fyrirtækið hafi fundið fyrir því að yfir háannatímann sé framboð á gistingu flöskuháls og því hafi þurft að vísa stöku hópum frá. Ástandið sé svipað á öðrum vinsælum ferðamannastöðum; það geti orðið uppselt á háannatíma. „Þetta er ekkert annað en ánægjulegt vandamál, ef þetta er þá vandamál,“ segir hann.

Gistirými sé alltaf að aukast og það sé spurning hversu mikið borgi sig að bæta við. Það sé ekki nóg að vera með fullbókað á sumrin til að reksturinn beri sig. Mestu tækifærin liggi augljóslega í að fjölga ferðamönnum utan háannatíma, þegar nýting á hótelum hefur verið lítil.

VELJA MILLI 2-3 STAÐA

Fjarlægir keppinautar

Kristín Sif Sigurðardóttir hjá Atlantik segir að í hvataferðum keppi Ísland alls ekki endilega við nágrannalöndin. Þegar fyrirtæki byrji að skoða áfangastað fyrir hvataferð þá standi valið oft á milli 2-3 staða. Ísland geti verið kaldi áfangastaðurinn, svo sé boðið upp á ferð þar sem hægt sé að komast í heilsulind og loks ferð til menningarborgar. Valið geti því staðið á milli Íslands, Parísar eða Marrakesh í Marokkó. Einnig keppi Ísland oft við Austur-Evrópu þar sem líka séu spennandi áfangastaðir á hagstæðu verði.