Rannsókn Jarðneskar leifar Pablos Neruda grafnar upp við heimili hans.
Rannsókn Jarðneskar leifar Pablos Neruda grafnar upp við heimili hans. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Jarðneskar leifar ljóðskáldsins Pablos Neruda voru grafnar upp í Síle í gær og sérfræðingar hyggjast rannsaka þær til að skera úr um hvort hann hafi dáið úr krabbameini eða hvort honum hafi verið byrlað eitur.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Jarðneskar leifar ljóðskáldsins Pablos Neruda voru grafnar upp í Síle í gær og sérfræðingar hyggjast rannsaka þær til að skera úr um hvort hann hafi dáið úr krabbameini eða hvort honum hafi verið byrlað eitur. Gert er ráð fyrir að rannsóknin taki að minnsta kosti þrjá mánuði.

Neruda var félagi í kommúnistaflokki Síle og dyggur stuðningsmaður Salvadors Allende forseta sem herforingjar steyptu af stóli 11. september 1973 undir forystu Augusto Pinochets einræðisherra. Neruda dó tólf dögum eftir valdaránið, 69 ára að aldri.

Yfirvöld í Síle sögðu á þeim tíma að Neruda hefði dáið af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli. Fjölskylda hans og Pablo Neruda-stofnunin, sem ekkja hans kom á fót, féllust á þá skýringu og sögðu í yfirlýsingu árið 2011 að engin sönnun væri fyrir því að hann hefði verið myrtur.

Dómsyfirvöld í Síle heimiluðu rannsóknina í júní 2011 eftir að Manuel Araya, sem var bílstjóri og aðstoðarmaður Neruda, fullyrti að skáldinu hefði verið byrlað eitur. Neruda er sagður hafa hringt í Araya skömmu áður en hann dó og sagt honum að sér liði illa eftir að hafa fengið sprautu á sjúkrahúsi í Santiago.

Kommúnistaflokkur Síle tók undir þessa ásökun, sagði að Neruda hefði ekki fengið nein einkenni krabbameins á lokastigi. Flokkurinn krafðist því rannsóknar á málinu.

Fulltrúi fjölskyldunnar sagði að hún væri hlynnt rannsókninni, vildi fá að vita sannleikann um hvort hann hefði dáið úr sjúdómi eða verið myrtur.

Talið er að Neruda hafi ætlað að fara í útlegð til Mexíkó eftir valdaránið í Síle og taka þátt í baráttunni gegn einræðisstjórn Pinochets. Sagnfræðingurinn Fernando Marin er á meðal þeirra sem telja að Neruda hafi verið myrtur til að koma í veg fyrir að hann færi í útlegð. „Enginn efast um að flugvél beið eftir Pablo Neruda á Pudahuel-flugvelli þegar hann dó,“ hefur fréttavefur BBC eftir Marin. „Hann var með þvagfærasýkingu og góðkynja æxli í blöðruhálskirtli samkvæmt rannsóknum lækna, en var ekki að deyja.“

Lík Neruda var grafið í garði heimilis hans í Isla Negra, um hundrað km frá höfuðborginni Santiago.

Neruda hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1971 og er meðal annars þekktur fyrir ljóðasafnið Canto general þar sem hann segir sögu þjóðar sinnar frá marxískum sjónarhóli og aðalhlutverkin eru í höndum alþýðumanna.