Höfundurinn „Marías er firnafær höfundur, það fer ekki á milli mála, og með persónulegan frásagnarhátt sem hann hefur afar gott vald á.“
Höfundurinn „Marías er firnafær höfundur, það fer ekki á milli mála, og með persónulegan frásagnarhátt sem hann hefur afar gott vald á.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Javier Marías. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýddi. Bjartur – Neon, 2012. 346 bls.
Það skiptir engu hvað gerðist. Þetta er skáldsaga og það sem gerist í skáldsögum gildir einu og gleymist jafnskjótt og lestrinum lýkur. Það sem er athyglisvert eru möguleikarnir og hugmyndirnar sem ímyndaðar aðstæðurnar í þessum verkum vekja með okkur og benda okkur á, við munum þær skýrar en raunverulega atburði og þær eru okkur hugstæðari . (137) Þarna er gripið inn í eina ræðuna sem einn þátttakandi sérkennilegs ástarþríhyrnings, Díaz-Varela að nafni, heldur yfir sögukonunni Maríu Dolz sem er þá orðin ástkona hans. Það sem gerist í skáldsögu skiptir ekki máli, segir hann, heldur möguleikarnir og hugmyndirnar sem vakna með okkur lesendum. Þessa staðhæfingu persónunnar má lesa sem stefnuyfirlýsingu höfundarins um söguna sem er til umfjöllunar og þar sem þetta er sagt. Ástir er einföld saga að ytri gerð en hún leynir verulega á sér, og áhugaverðar hugmyndirnar, og sjálfsréttlæting og orðræða persónanna, draga lesandann áfram með fremur hægri en seigfljótandi frásögninni.

Ástir er saga um einmitt það, ást, en líka um líf og dauða; og um það hvenær maður drepur mann og hvenær maður drepur ekki mann. Sögukonan María hefur um langt skeið fengið sér morgunverð á sama veitingastað í Madríd og hjónin Miguel og Luisa, sem eru glaðlegt fólk og sýnilega ástfangið. Dag einn hættir María að sjá þau og kemst skömmu síðar að því að Miguel hefur verið myrtur á grimmilegan hátt á fimmtugsafmæli sínu. Í kjölfarið kynnist María ekkjunni og gegnum hana besta vini hins myrta – þar er kominn Díaz-Varela, sá er segir hugmyndir í skáldsögum verða lesendum hugstæðari en raunverulegir atburðir. Og sá er ekki allur þar sem hann er séður, þrátt fyrir að María falli fyrir honum; hann á sér myrkt leyndarmál sem María kemst að.

Ástir er saga um samskipti fólks, heiðarleika, sannleika og lygar. Og um það að segja sögu. Persónur tala og tala, og lesandinn fylgist líka með hugsunum þeirra og hugmyndaflæði, þar sem aðstæðurnar eru útskýrðar og ræddar, líkinda leitað í skáldverkum og lesandinn er aldrei látinn gleyma því að hann sé einmitt að lesa eitt slíkt. Marías er firnafær höfundur, það fer ekki á milli mála, og með persónulegan frásagnarhátt sem hann hefur afar gott vald á. Það hlýtur að vera erfitt að snara þessum texta á annað mál, en Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýðandi hefur unnið afar gott verk, enda er textinn lipur og læsilegur að öllu leyti.

„Þessi höfundur hlýtur að fá Nóbelsverðlaunin,“ sagði rithöfundur við mig um daginn. Hann er mikill aðdáandi Javiers Marías en bætti við að Ástir væri ekki ein af hans allra bestu bókum, þótt góð sé. Og hún er svo sannarlega góð – ef aðrar sögur hans eru mun betri er skiljanlegt að sá spænski sé orðaður við verðlaunin sem hann lætur hlægilega aukapersónu, rithöfundinn Garay Fontina, þrá mjög að fá. Sá heldur því fram við starfsfólk bókaútgáfunnar, og þar á meðal sögukonuna Maríu, að það sé að koma að honum: „Nú hef ég lært utanbókar á sænsku það sem ég ætla að segja við Karl Gústaf við athöfnina. Ég ætla að tala hann í kútinn, aldrei á ævinni skal hann hafa heyrt neitt eins svakalegt, og það á sínu eigin tungumáli sem enginn nennir að læra.“ „Og hvað er það, hvað er það?“ spurði yfirmaðurinn af fyrirsjáanlegri eftirvæntingu. „Þú færð að lesa það í heimspressunni daginn eftir,“ svaraði Garay Fontina yfirlætislega. (25)

Einar Falur Ingólfsson