Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson
Eftir Árna Þór Sigurðsson: "Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á nýja sókn í velferðarmálum á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur í ríkisfjármálum."

Fáir deila um að íslenskt samfélag sé betur statt nú í lok kjörtímabils en fyrir fjórum árum, í kjölfar hrunsins mikla. Það hefur vissulega ekki verið átakalaust og margir búa við þrengri kost nú en fyrir hrun. Hins vegar hefur markviss vinna við uppbyggingu samfélagsins tryggt að nú er hægt að hefja nýja sókn til framtíðar.

Ábyrgur ríkisbúskapur

Á liðnu kjörtímabili hefur ríkisbúskapurinn verið reistur úr rústum hrunsins. Óstjórn og ábyrgðarleysi í aðdraganda hrunsins áttu ekki síst hlut að máli þar sem skattalækkanir útrásaráranna grófu undan möguleikum ríkissjóðs á að takast á við efnahagsleg áföll. Óheft frjálshyggja og óábyrg kosningaloforð á árunum fyrir hrun voru hinn görótti kokteill sem leiddi ógæfuna yfir íslenska þjóð.

En með gerbreyttri ríkisfjármálastefnu eru fjármál ríkissjóðs orðin sjálfbær. Árið 2008 var ríkissjóður rekinn með halla upp á 14,6% af vergri landsframleiðslu og árið 2009 með 9% halla. Samtals nam hallinn nálægt 400 milljörðum króna að núvirði á tveimur árum. Með markvissum aðgerðum hefur á einu kjörtímabili tekist að vinda nær alveg ofan af þessum halla og koma þjóðarbúskapnum í jafnvægi. Engu að síður verður að halda áfram ábyrgri stefnu til að vinna á gífurlegri skuldsetningu og vaxtakostnaði ríkissjóðs, sem eru afleiðingar hrunsins og gjaldþrots Seðlabankans.

Svigrúm til fjárfestingar í grunnstoðum

Á næsta kjörtímabili má búast við að viðsnúningurinn í ríkisfjármálum skapi um 50-60 milljarða svigrúm til uppbyggingar. Vinstri græn vilja nýta þetta svigrúm til fjárfestingar í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Fjárfesting í grunnstoðum er ávísun á trausta og sjálfbæra framtíð samfélagsins. Kosningaloforð um stórfelldar skattalækkanir eða sjónhverfingar munu ekki skila árangri, miklu fremur stórskaða innviði samfélagsins.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á liðnu kjörtímabili hafa aukið jöfnuð og lækkað skattbyrði um 60% heimila í landinu. Vinstri græn vilja halda skattkerfinu í meginatriðum óbreyttu en beina því svigrúmi sem gefst til skattalækkunar í þágu lág- og millitekjuhópa til að tryggja enn frekar jöfnuð í samfélaginu. Staðreyndin er að loforðaflaumur um að taka til baka allar skattkerfisbreytingar mun einkum hafa tvennt í för með sér: skattalækkun til hátekjuhópa og stóreignafólks og þar með aukna misskiptingu og stórfelldan niðurskurð í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Það er leið sem við Vinstri græn viljum ekki fara.

Stórsókn í velferðarmálum

Þvert á móti teljum við að nú hafi skapast aðstæður til að hefja stórsókn í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum og til að setja bætt kjör kvennastétta í forgang. Öflugt heilbrigðiskerfi sem tryggir jafnan aðgang að góðri og áreiðanlegri þjónustu eykur lífsgæði. Efling menntakerfisins skapar aukin tækifæri og stuðlar að velsæld. Öflugra velferðarkerfi tryggir aukinn jöfnuð og þannig farsælla samfélag. Meðal þess sem við höfum beitt okkur fyrir í þessum málaflokkum og viljum vinna að áfram á næsta kjörtímabili er

• bætt starfsaðstaða og tækjakostur á heilbrigðisstofnunum,

• aukið aðgengi að tannlæknaþjónustu,

• að sálfræðiþjónusta verði hluti af heilbrigðiskerfinu,

• efling heilsugæslunnar,

• nýtt námslánakerfi,

• framfærsla fyrir þá sem koma til náms á framhaldsskólastigi af vinnumarkaði,

• fullfjármagnað háskóla- og framhaldsskólastig,

• aukinn stuðningur við barnafjölskyldur,

• áframhaldandi styrking barnabótakerfisins,

• hærra tekjuþak vegna fæðingarorlofs,

• bætt staða tekjulágra, aldraðra og öryrkja,

• nýtt og fullfjármagnað almannatryggingakerfi,

• aðstoð við skuldsett heimili,

• nýtt húsnæðiskerfi, m.a. með samræmdum húsnæðisbótum jafnt til þeirra sem kaupa og leigja.

Ábyrgð, jöfnuður og almannaheill

Þetta eru raunsæ verkefni en engar skýjaborgir. Sú forysta sem Vinstri græn hafa haft um viðsnúning í þjóðarbúskapnum á sérlega erfiðum tímum í íslensku þjóðlífi tryggir að nú er hægt að hefja nýja sókn. Óraunsæ gylliboð og neikvæður áróður gegn því sem áunnist hefur mega ekki villa okkur sýn. Ábyrgð, jöfnuður og almannaheill eru kjörorðin sem við setjum í öndvegi.

Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður.