Gestagangur Örtröð var á opnun sýningarinnar Ævintýri fuglanna í Safnahúsinu í Borgarnesi á föstudag. En fuglarnir á borðunum létu fólkið ekki trufla sig enda allir löngu búnir að kveðja jarðvistina.
Gestagangur Örtröð var á opnun sýningarinnar Ævintýri fuglanna í Safnahúsinu í Borgarnesi á föstudag. En fuglarnir á borðunum létu fólkið ekki trufla sig enda allir löngu búnir að kveðja jarðvistina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Mörg þúsund kílómetra farflug kríunnar hefur lengi vakið aðdáun og koma hennar og annarra vorboða er hluti af hrynjandi mannlífsins á Íslandi, ratvísi þeirra og tryggð heilla okkur stöðugt.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Mörg þúsund kílómetra farflug kríunnar hefur lengi vakið aðdáun og koma hennar og annarra vorboða er hluti af hrynjandi mannlífsins á Íslandi, ratvísi þeirra og tryggð heilla okkur stöðugt. Safnahús Borgarfjarðar í Borgarnesi hefur nú opnað sýningu þar sem farfuglar eru sýndir í margbreytilegu umhverfi sínu. Notast er við safnkost Náttúrugripasafns Borgarfjarðar, uppstoppaða fugla eins og snæuglu og albínóa úr röðum langvía og stelka, einnig mörg egg, það elsta er frá 1906, tínt í Grímsey.

Flugleiðirnar eru teiknaðar á stór handmáluð veraldarkort og hönnuðurinn, Snorri Freyr Hilmarsson, notar mikið spegla og gler til að ýta undir sjónræna tilfinningu um töfra víðáttunnar. Markmiðið er að áhorfandinn sé ekki lengur á safni heldur úti í sjálfri náttúrunni. Sýnt er m.a. vænghaf arnarins í raunstærð en einnig vænghaf steindepilsins við hliðina til viðmiðunar.

Alþjóðlegt hlutverk Íslands

„Þarna eru mjög vandaðir gripir sem eru eftir tvo merka handskera, Kristján Geirmundsson á Akureyri og Jón M. Guðmundsson í Reykjavík. Kristján lést 1975 en Jón fagnaði með okkur á opnuninni sl. föstudag, hann er níræður og enn að vinna við uppstoppun,“ segir Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður Safnahússins. Jón færði þeim uppstoppaða skúfönd að gjöf í tilefni dagsins. Alls eru nú um 175 fuglar í safninu, tegundirnar þó eitthvað færri.

„Við ákváðum að leggja áherslu á víðáttuna í lífríki fuglanna, ekki síst flugafrek þeirra. Við leituðum ráðgjafar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu Vesturlands sem lagði línurnar með okkur í því að sýna mikilvægi þess að vernda búsvæði fuglanna. Það er hlutverk Íslands í þessu alþjóðlega samhengi,“ segir Guðrún og bendir á að fuglar, sem koma til Íslands til að verpa, hafi vetursetu í öðrum löndum.

„Nú var einmitt verið að viðurkenna Andakíl á Hvanneyrarsvæðinu sem alþjóðlegt votlendissvæði, það er orðið hluti af Ramsar-samningnum. Krakkar sem sjá sýninguna átta sig kannski betur á því hvað það er mikilvægt fyrir okkur að ganga vel um náttúruna hérna til þess að fuglar um allan heim lifi af,“ segir Guðrún.

MARGIR DÝRGRIPIR BORGFIRÐINGA Í SAFNAHÚSINU

Barónsflygill og fuglaegg

Safnahúsið í Borgarnesi er rétt hjá Landnámssetrinu við höfnina, söfnin sjálf eru um fimmtugt. Þar eru margir merkir gripir. Nefna má flygilinn sem baróninn franski á Hvítárvöllum átti en Barónsstígur í Reykjavík er kenndur við þennan einkennilega mann. Auk bókasafns og skjalasafns eru þrjú önnur söfn í Safnahúsinu, byggðasafn, listasafn og náttúrugripasafn. Gripirnir í því síðastnefnda eru að mestu frá áttunda áratug síðustu aldar.

Önnur sýning í safninu er einnig hönnuð af Snorra, Börn í 100 ár. Aðallega er um að ræða ljósmyndir af íslenskum börnum síðustu 100 árin. Þau eru að vinna eða leika sér, sum með foreldrum sínum. Einnig er þarna endurgerð baðstofa úr Reykholtsdal.